140 milljarðar í veðmál

Samsett mynd af Biden og Trump.
Samsett mynd af Biden og Trump. AFP

Viðskiptin hafa blómstrað hjá veðbönkum að undanförnu vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum sem fara fram á þriðjudaginn.

Þrátt fyrir að kosningadagur sé ekki runninn upp er áætlað að veðjað hafi verið fyrir rúman einn milljarð bandaríkjadala, eða um 140 milljarða króna, víðs vegar um heiminn á sigurvegara kosninganna.

Að sögn Matthew Shaddick, yfirmannns pólitískra veðmála hjá breska fyrirtækinu GVC, er þetta tvöfalt hærri upphæð en fyrir forsetakosningarnar 2016. Þá kom Donald Trump flestum á óvart og bar sigurorð af Hillary Clinton.

Málaðar myndir af Biden og Trump á Indlandi.
Málaðar myndir af Biden og Trump á Indlandi. AFP

Trump er aftur talinn eiga undir högg að sækja í komandi kosningum og er andstæðingur hans, demókratinn Joe Biden, líklegri sigurvegari hjá veðbönkum GVC, þar á meðal Ladbrokes, Coral og Bwin.

Biden er einnig líklegri sigurvegari hjá keppinauti þeirra, William Hill.

„Þetta er risastór markaður,“ sagði Shaddick við AFP. „Þetta er tvöfalt stærra en árið 2016 og þetta er auðveldlega stærsti stjórnmálaviðburður allra tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert