14 látnir eftir skjálftann í Eyjahafi

Tólf eru látnir og 419 slasaðir eftir öflugan jarðskjálfta undan ströndum Tyrklands í morgun. Þá eru tveir látnir á grísku eyjunni Samos, og er fjöldi látinna því kominn upp í 14 manns.

Skjálftinn var um 7,0 að stærð og olli minniháttarflóðbylgju á grísku eyjunni Samos. Fannst skjálftinn bæði í Instanbúl og Aþenu. 

Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, hringdi í Recep Erdogan, forseta Tyrklands, seint í dag til að votta honum samúð og fór betur á með þeim en oft áður. Nágrannaríkin tvö eiga í sögulega slæmu sambandi um þessar mundir þrátt fyrir að vera bæði aðilar að Atlantshafsbandalaginu.

Í frétt AFP segir að jarðskjálftinn hafi vakið upp það sem fjölmiðlar hafa kallað „jarðskjálftasamband“ með símtölum á milli æðstu ráðamanna landanna. „Hver svo sem ágreiningur okkar er, þá eru þetta tímar þar sem okkar þjóðir þurfa að standa saman,“ skrifaði Misotakis á Twitter.

Tyrkland og Grikkland eru á virkasta jarðskjálftabelti heims. Árið 1999 reið jarðskjálfti af stærð7,4 yfir norðvesturhluta Tyrklands og létust yfir 17.000 manns, þar af um 1.000 í Istanbul.

Björgunarmenn leita að fólki í húsarústum í tyrknesku borginni Izmir.
Björgunarmenn leita að fólki í húsarústum í tyrknesku borginni Izmir. AFP
mbl.is