Frakkland „í stríði við íslamska öfgastefnu“

Darmanin og Macron, báðir í forgrunni fyrir miðju, á vettvangi …
Darmanin og Macron, báðir í forgrunni fyrir miðju, á vettvangi árásarinnar í dag. AFP

Franska lögreglan hefur tekið höndum mann sem talinn er hafa verið í samskiptum við íslamistann sem myrti þrjá með hrottafengnum hætti í kirkju í Nice í gær. Þetta herma heimildir AFP.

Maðurinn, sem er 47 ára, var tekinn í varðhald seint í gær.

„Hann var ekki á neinum eftirlitslista, hvorki frönskum né evrópskum,“ sagði innanríkisráðherrann Gerald Darmanin um árásarmanninn í dag.

Árásarmaðurinn á sjúkrahúsi

Ítrekaði hann að Frakkland ætti „í stríði við íslamska öfgastefnu“, óvin sem sé bæði að innan og utan.

„Og þegar þú ert í stríði, þá verðurðu að skilja að því miður, þá hafa orðið og verða önnur tilvik eins og þetta,“ sagði ráðherrann í samtali við útvarpsstöðina RTL.

Árásarmaðurinn, 21 árs Túnisi að nafni Brahim Aouissaoi, er á sjúkrahúsi eftir að skot lögreglu hæfðu hann nokkrum sinnum. 

Macron heldur neyðarfund

Emmanuel Macron Frakklandsforseti heldur neyðarfund með helstu ráðherrum ríkisstjórnar sinnar í dag. Hann hefur þegar fyrirskipað að herinn gæti kirkna og annarra staða í aðdraganda allraheilagramessu á sunnudag.

Margar kaþólskar fjölskyldur heimsækja þá grafreiti, sem enn verða opnir þrátt fyrir nýjar samgöngutakmarkanir sem tóku gildi í dag.

mbl.is