Nýju þyrlurnar geta ekki lent

AgustaWestland AW101, eða SAR Queen eins og hún er kölluð, …
AgustaWestland AW101, eða SAR Queen eins og hún er kölluð, tekur forvera sínum Sea King fram í flestu, flughraða, flugþoli, stöðugleika í illviðri og kuldaþoli. Einn augljósan kost hafði þó Sea King-þyrlan fram yfir SAR Queen; að geta lent við Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló. Ljósmynd/Norski herinn

Fyrsti september í haust var sögulegur dagur í björgunar- og sjóslysasögu Noregs. Þá voru fyrstu tvær af alls 16 AgustaWestland AW101-björgunarþyrlum teknar í notkun á Sola-flugvellinum við Stavanger við upphaf þess ferlis að skipta út gömlu Sea King-þyrlunum sem ófá skiptin hafa skilið milli feigs og ófeigs í Norðursjónum, og um allan Noreg, síðustu fjóra áratugi.

Nýju þyrlurnar, gælunafn SAR Queen, eru tæknilegt rothögg miðað við forverann, ná rúmlega 300 kílómetra hraða miðað við klukkustund, hafa hátt í 300 sjómílna flugþol, eru nothæfar í allt að 45 stiga frosti og þola mun vályndari veður en Sea King-þyrlurnar auk þess að geta bjargað 20 manns um borð. Verðmiðinn á allar 16 þyrlurnar er 17 milljarðar norskra króna, jafnvirði tæplega 252 milljarða íslenskra króna.

Þurfa bráðabirgðalendingarstað

Einn er þó hængur á. SAR Queen, sem eru fjórum tonnum þyngri en Sea King, geta ekki lent við helsta bráðasjúkrahús Noregs, Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló. Til þess er loftþrýstingurinn frá voldugum þyrluspöðunum allt of mikill og lá við að stærstu tré legðust flöt þegar tilraun var gerð til að lenda við Ullevål auk þess sem lauslegir munir svifu um loftin blá.

„Nýju þyrlurnar geta hvorki lent hér né við Ríkissjúkrahúsið. Við munum þurfa lendingarstað annars staðar í Ósló til bráðabirgða. Ég tel það alvarlegt að nýju björgunarþyrlurnar geti ekki lent hér strax á morgun,“ segir Nils Oddvar Skaga, yfirlæknir bráðalækninga við svæfingardeild Ullevål-sjúkrahússins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Skaga hefur tekið á móti alvarlega slösuðu fólki við Ullevål í 25 ár.

Ólíklegt er þó að fyrsta lending verði á morgun. Til þess að gera AW101-þyrlunum kleift að lenda við þessi þungavigtarsjúkrahús í björgunarstörfum Noregs þarf að hækka lendingarpallana úr 19 metrum upp í 31.

Allar tafir óæskilegar

Þetta tekur tímann sinn. Gert er ráð fyrir að nýir lendingarpallar við sjúkrahúsin tvö verði tilbúnir árið 2022. Tilraunalendingar við sjúkrahúsin í Bergen og Þrándheimi, þangað sem einnig er mikið flogið í bráðatilfellum, hafa þó tekist. Ekki var þó óhætt að vera nálægt lendingarpallinum í Þrándheimi vegna foks lausamuna.

Sven Christjar Skaiaa, einnig yfirlæknir við Ullevål, tekur undir með starfsbróður sínum, og segir það ótækt að hafa ekki lendingaraðstöðu við sjúkrahúsið.

„Allar tafir og flutningar yfir í annað farartæki hafa í för með sér aukna áhættu fyrir alvarlega veika og slasaða sjúklinga,“ segir Skaiaa og vísar til þess að eftir að þyrla lendir á bráðabirgðalendingarstað í borginni eigi eftir að aka með sjúklinginn í sjúkrabifreið þaðan og undir læknishendur.

„Hugsaðu þér slys á borð við þegar Scandinavian Star brann á Skagerak [7. apríl 1990]. Yrði svipað slys næstu tvö árin kæmi hluti sjúklinganna auðvitað á Ullevål, meðal annars með AW101-þyrlunum frá Sola. En þær geta ekki lent,“ segir Nils Oddvar Skaga yfirlæknir að lokum.

NRK

NRKII

Dagsavisen

mbl.is