Nýsjálendingar styðja lögleiðingu dánaraðstoðar

Ný-Sjálendingar studdu tillöguna með miklum meirihluta.
Ný-Sjálendingar studdu tillöguna með miklum meirihluta. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Mikill meirihluti Nýsjálendinga styður lögleiðingu dánaraðstoðar í landinu, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu. Útlit er aftur á móti fyrir að önnur atkvæðagreiðsla um lögleiðingu almennrar neyslu kannabisefna hljóti ekki meirihlutastuðning.

Atkvæðagreiðslurnar fóru fram 17. október, á sama tíma og þingkosningar voru haldnar í landinu þar sem Jacinda Ardern forsætisráðherra vann með miklum meirihluta.

Bráðabirgðaniðurstöður sýndu að 62,5 prósent kjósenda styðja dánaraðstoð en 33,8 prósent eru á móti. Alls er 53,1% mótfallið lögleiðingu almennrar neyslu kannabisefna en 46,1% er því fylgjandi.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Bráðabirgðaniðurstöðurnar innihalda ekki atkvæði sem voru greidd utankjörfundar, meðal annars í öðrum löndum. Hlutfall þeirra af öllum atkvæðum er um 20% og því gæti atkvæðagreiðslan um kannabisefnin enn farið á annan veg.

Aftur á móti er ljóst að mikill meirihluti styður lögleiðingu dánaraðstoðar, sem þýðir að hún verður að lögum því þær niðurstöður eru bindandi. Sú er ekki raunin með niðurstöður varðandi kannabisefnin.

Lögleiðing dánaraðstoðar var samþykkt á nýsjálenska þinginu í fyrra en ákveðið var að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en framkvæmd laganna tæki gildi.

mbl.is