Sjö stiga skjálfti við Tyrkland

Skjálftinn varð undan vesturströnd Tyrklands.
Skjálftinn varð undan vesturströnd Tyrklands. Skjáskot/USGS

Sterkur jarðskjálfti, sem metinn hefur verið allt að 7 að stærð, varð á 16,5 kílómetra dýpi norðan við grísku eyjuna Samos í Eyjahafi, undan vesturströnd Tyrklands, nú klukkan 11.50 að íslenskum tíma.

Skjálftinn fannst greinilega í Tyrklandi, á eyjunni Krít og í grísku höfuðborginni Aþenu.

Líklegt er að skemmdir hafi orðið á byggingum þegar skjálftinn varð. Myndskeið á samfélagsmiðlum gefa til kynna að byggingar hafi hrunið í tyrknesku borginni Izmir, en ekki hefur tekist að sannreyna áreiðanleika þeirra.

Sjá staðsetningu skjálftans

Ekki hægt að útiloka flóðbylgju

„Veggir nokkurra húsa hafa hrunið og fleiri byggingar eru skemmdar,“ segir aðstoðarbæjarstjórinn á Samos, Michalis, Mitsios, í samtali við gríska ríkisútvarpið ERT.

„Ekki er hægt að útiloka flóðbylgju,“ segir gríski skjálftafræðingurinn Efthymis Lekkas.

Bandaríska jarðfræðistofnunin hefur metið stærð skjálftans 7 stig, en tyrknesk og grísk yfirvöld meta stærðina á bilinu 6,6 til 6,7.

Uppfært:

mbl.is