100.000 mótmæltu þrengri þungunarrofslögum

Fólk af öllum kynjum hefur látið í sér heyra vegna …
Fólk af öllum kynjum hefur látið í sér heyra vegna málsins. AFP

Um hundrað þúsund mótmælendur létu í sér heyra á götum Varsjár, höfuðborgar Póllands, í gær. Um er að ræða stærstu mótmæli sem beinast gegn ráðandi hægriflokki Pólverja, Lögum og réttlæti, síðan hann tók við stjórnartaumunum árið 2015. 

Mótmæli hafa verið haldin víða um Pólland síðan stjórnlagadómstóll landsins lýsti því yfir fyrr í þessum mánuði að í þeim tilfellum þar sem fóstur er greint með alvarlegan og óafturkræfan fæðingargalla sé þungunarrof ekki stjórnarskrárbundinn réttur þess sem fóstrið ber. Af þeim sökum er þungunarrof aðeins heimilt í þeim tilvikum sem líf móðurinnar er í hættu eða þungunin er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells. 

Um 96% tilvika þungunarrofs í Póllandi fara fram vegna þess að fóstrið er með slíkan fæðingargalla en í Póllandi eru einhver takmörkuðustu þungunarrofslög í Evrópu. 

Duda kynnir „lausn“

Á miðvikudag hópuðust 400.000 saman til að mótmæla í yfir 400 bæjum og borgum víðsvegar um landið. 

Örfáum klukkustundum fyrir mótmæli gærdagsins tilkynnti Andrzej Duda, forseti Póllands, það sem hann kallaði lausn á vandanum. Með henni væri þungunarrof heimilt í þeim tilvikum sem fæðingargallinn er endanlegur. Þungunarrof í öðrum tilvikum fæðingargalla, til dæmis þegar fóstur greinist með Downs-heilkenni, væru þó óheimil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert