Búðarferðin kostaði 450.000

Tromsø, höfuðstaður norska norðurlandsins, þar sem kórónuveirusmitaður maður var gripinn …
Tromsø, höfuðstaður norska norðurlandsins, þar sem kórónuveirusmitaður maður var gripinn í landhelgi í búðinni í gær og sektaður um 30.000 norskar krónur. Ljósmynd/Wikipedia.org/Svein-Magne Tunli

Ekki er ókeypis að brjóta sóttvarnareglur í Noregi eins og maður nokkur á sextugsaldri í Tromsø, höfuðstað Norður-Noregs, fékk að reyna á eigin skinni í gær. Sá hafði greinst smitaður af kórónuveiru á fimmtudaginn en ákvað engu að síður að lauma sér í búðina eftir nauðsynjum.

Ekki fór sú för betur en svo að sveitungar mannsins, sem vissu af smitinu, sáu til ferða hans og kölluðu til lögreglu, en maðurinn var þá reyndar í annað skipti þennan sama dag staddur í versluninni.

Búðarferðin sú kostaði sitt þar sem lögregla gerði hinum smitaða sekt upp á 30.000 norskar krónur sem samsvarar tæpum 450.000 íslenskum á gengi dagsins.

„30.000 króna sekt hefur hvort tveggja sérstök og almenn varnaðaráhrif,“ segir Ronny Jørgensen, varðstjóri hjá lögreglunni í Tromsø, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og vísar þar til þess að sektin verði hvort tveggja hinum seka til aðvörunar í framtíðinni og öðrum sem íhuga að láta freistast til að sinna erindum smitaðir.

„Nú ertu með kórónuveiru“

Þetta er ekki fyrsta kórónusektin sem lögð er á í Tromsø, í mars var maður sektaður þar um 15.000 krónur, um 220.000 ISK, eftir að hafa blásið í andlit öryggisvarðar og sagt við hann í kjölfarið: „Nú ertu með kórónuveiru.“

Í maí var maður í Ósló sektaður um 20.000 krónur, tæpar 300.000 ISK, þegar hann fór í heimsókn til ættingja þrátt fyrir að hafa átt að sitja heima í 14 daga sóttkví eftir ferð til Taílands og annar í Kongsvinger varð sömu upphæð fátækari eftir að hafa mætt í teiti nýkominn frá útlöndum.

Þá var 22 ára gamall maður dæmdur í 18 daga skilorðsbundið fangelsi og auk þess til að greiða 10.000 krónur, tæpar 150.000 ISK, í sekt eftir að hafa ítrekað brotið sóttvarnareglur í apríl. Um helmingur mála, sem tengjast kórónufaraldrinum hjá lögreglunni í Ósló, snýst um brot á reglum um sóttkví og einangrun og hafa sektarupphæðir í borginni hlaupið á bilinu 5.000 – 22.000 krónur eða 75.000 – 326.000 ISK.

NRK

NRKII (skilorðsdómur í Ósló)

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert