„Ég gerði þetta ekki“

„Ég gerði þetta ekki,“ heldur Tom Hagen blákalt fram í …
„Ég gerði þetta ekki,“ heldur Tom Hagen blákalt fram í fyrsta viðtalinu sem hann veitir, tveimur árum eftir hvarf Anne-Elisabeth Hagen upp á dag. Hann bauð Runar Henriksen Jørstad, fréttamanni NRK, í stofu sína við Sloraveien og gerði upp árin tvö. Skjáskot/Fréttatími NRK

„Þetta hafa verið tvö erfið ár,“ segir norski fjárfestirinn, verkfræðingurinn og milljarðamæringurinn Tom Hagen með hægð þar sem hann situr í stofu sinni að Sloraveien 4 í Lørenskog, skammt frá Ósló, andspænis Runar Henriksen Jørstad, fréttamanni norska ríkisútvarpsins NRK, í dag, 31. október, daginn sem tvö ár eru liðin frá einu voveiflegasta og umtalaðasta mannshvarfi sem Norðmenn muna, brottnámi eiginkonunnar Anne-Elisabeth Hagen.

Hagen, sem enn liggur undir grun lögreglu um að standa á bak við hvarfið og sat um tíma í gæsluvarðhaldi í vor, rifjar upp morguninn örlagaríka fyrir tveimur árum. Eins og alla morgna hafi þau hjónin setið í stofunni, lesið blöðin og drukkið hvort sinn kaffibollann áður en Hagen hélt til skrifstofu sinnar í Futurum-byggingunni á Rasta, í aðeins tíu mínútna akstursfjarlægð frá heimili þeirra.

„Þar lá umslag“

„Ég hringdi svo í hana síðar um morguninn og hún svaraði ekki,“ segir Hagen frá. Þegar ósvöruðu símtölin urðu fleiri setti að honum ugg. „Ég fékk einhverja slæma tilfinningu, þetta var mjög ólíkt henni, mér flaug í hug að hún hefði ef til vill fengið hjartaáfall,“ segir Hagen, en þau hjónin eru bæði um sjötugt.

Hann ók heim og kom þangað um 13:30. „Ég leitaði um allt, fór niður í kjallara og að lokum út í bílskúr og hún var hvergi sjáanleg. Það var fyrst þegar ég kom inn aftur sem mér varð litið á stólinn þarna,“ segir Hagen og bendir á rauðmálaðan tréstól upp við vegg. „Þar lá umslag.“

Hagen setur upp gleraugun og les upp úr lausnargjaldsbréfinu sem …
Hagen setur upp gleraugun og les upp úr lausnargjaldsbréfinu sem málfræðingar lágu yfir á sínum tíma í þeirri viðleitni að afhjúpa þjóðerni bréfritara. Um það er ekki meira vitað nú en þá. Skjáskot/Fréttatími NRK

Í þessu umslagi var bréf og þar sett fram krafa um að fýsti milljarðamæringinn að sjá konu sína á lífi á ný skyldi hann reiða fram tæpar 100 milljónir norskra króna, hátt í einn og hálfan milljarð íslenskra króna, í lausnargjald í rafmyntinni bitcoin.

Hagen stendur nú upp og nær í bréfið, sem norskir málfræðingar rannsökuðu í þaula auk lögreglu til að reyna að varpa ljósi á þjóðerni ritara út frá bjagaðri norskunni. Les Hagen svo upphaf bréfsins en brestur fljótlega í grát og bandar frá sér með hendinni og gerir Jørstad þá hlé á viðtalinu.

„Gerðirðu það?“

Skipt er um umræðuefni og spyr Jørstad nú út í daginn sem Tom Hagen var handtekinn, 28. apríl í vor, grunaður um að hafa ráðið konu sína af dögum eða verið samverkamaður við þann verknað.

„Ég er bara stöðvaður, tveir bílar koma aðvífandi og stöðva mig og svo kom fólk inn í bílinn til mín, svartklætt fólk man ég.“

Lögreglumaður með hund og Covid-grímu við Sloraveien 4 daginn sem …
Lögreglumaður með hund og Covid-grímu við Sloraveien 4 daginn sem Tom Hagen var handtekinn í vor, 28. apríl, grunaður um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu. AFP

„Og hvað hugsaðirðu þarna, þegar þetta gerist?“ spyr Jørstad.

„Ég hugsaði eiginlega ekki svo mikið, man þó að hugsunin sem sló mig fyrst var „Taktu þessu með ró Tom, þetta er einhver misskilningur,“ en svo áttaði ég mig á hvað var á seyði þegar þeir réttu mér handtökutilskipunina,“ rifjar verkfræðingurinn upp. „Þar stóð að ég væri grunaður um að hafa myrt konu mína eða átt þátt í að myrða hana á Sloraveien 4.“

„Gerðirðu það?“ spyr Jørstad.

„Nei,“ svarar Hagen ákveðinn, „ég gerði þetta ekki.“

„Áttirðu einhvern þátt í því sem gerðist?“

„Nei, það átti ég ekki.“

Segir Hagen aðspurður tilfinninguna sem fylgdi því að vera grunaður hafa verið ákaflega slæma.

„Það var illt. Ég hélt allt fram í apríl að ég ætti í góðu sambandi við lögregluna svo það sem gerðist þá var áfall, gríðarlegt áfall,“ segir Hagen.

Kaupmálinn umdeildi

Dagblaðið VG greindi frá því í vor að Hagen hefði búið svo um hnútana með kaupmála, að við skilnað bæri Anne-Elisabeth nær ekkert úr býtum, eiginmaðurinn, 172. auðugasti maður Noregs, héldi fjármunum sínum óskiptum. Töldu lögfróðir menn, sem VG og fleiri fjölmiðlar leituðu til, að samningur þessi væri svo bersýnilega ósanngjarn að efni, að líklegt mætti telja að héraðsdómari viki honum til hliðar kæmist málið á það stig.

Anne-Elisabeth Hagen hvarf 31. október 2018, fyrir tveimur árum, og …
Anne-Elisabeth Hagen hvarf 31. október 2018, fyrir tveimur árum, og stendur lögregla enn ráðþrota gagnvart því hvað um hana varð. AFP

Jørstad spyr Hagen út í þetta atriði sem hugsanlega ástæðu.

„Kringumstæðurnar þarna voru þær að við höfðum verið í öldudal og ég varð dálítið smeykur [...] Lögregluna grunaði kannski að ég hefði ákveðið að losa mig við hana af því að þarna var samningur sem hún gæti kannski gengið inn í og ég væri hræddur um að þurfa að láta hana hafa eitthvað,“ segir Hagen.

„Varstu það?“

„Nei, aldrei.“

„Ef það eru einhverjir sem námu hana á brott, einhverjir aðrir en þú, hvað viltu segja við þá?“ spyr Jørstad þegar líða tekur að lokum þessa fyrsta viðtals við Tom Hagen eftir tveggja ára lögreglurannsókn sem enn hefur engu skilað.

„Hvað vil ég segja við þá? Afleiðingarnar hafa verið miklar af því sem þið hafið gert. Sé hún á lífi er bæn mín stór...um að afhenda [hvis det er i live er liksom bønnen stor...å levere]. Hafi málalok orðið önnur er bara að segja frá því,“ segir fjárfestirinn.

„Óvíst að svo verði“

Inn á milli er skotið viðtali við Agnes Beate Hemiø, lögmann austurumdæmis lögreglunnar, sem segist vonast til að málið leysist að lokum þrátt fyrir að liðin séu tvö ár frá hvarfinu.

„Heldurðu að fólk trúi þér?“ spyr Jørstad þegar sögunni víkur aftur til þeirra Hagen í stofunni við Sloraveien.

Norðmenn stóðu á öndinni þegar Tommy Brøske, stjórnandi rannsóknarinnar, boðaði …
Norðmenn stóðu á öndinni þegar Tommy Brøske, stjórnandi rannsóknarinnar, boðaði blaðamannafund 9. janúar 2019 og greindi þjóðinni frá því að eiginkona eins auðugasta manns landsins hefði horfið sporlaust rúmum tveimur mánuðum áður. Var rannsókninni í fyrstu haldið kirfilega leyndri vegna ótta um öryggi Anne-Elisabeth. AFP

„Mér skilst að í svona málum sé erfitt að taka því sem sjálfsögðum hlut að fólk trúi manni,“ svarar Hagen. „en ég trúi því að fólk sem þekkir mig vel taki mig trúanlegan,“ segir hann enn fremur og bætir því við að án stuðnings fjölskyldunnar væri staða hans vonlaus.

„En ef það ert ekki þú, hver getur haft hagsmuni af því að nema konuna þína á brott?“ spyr Jørstad.

„Það...því get ég ekki svarað af því að ég veit það ekki. Það eina sem ég trúi og lífið hefur kennt mér er að réttlætið sigrar að lokum. En það getur tekið tíma.“

„Heldurðu að þú munir sjá hana á nýjan leik?“

„Trúin flytur fjöll, en ég er raunsær maður og ég er farinn að átta mig á því að það er óvíst að svo verði,“ segir Tom Hagen, verkfræðingur, fjárfestir og milljarðamæringur í Lørenskog, að lokum við NRK í fyrsta viðtalinu sem hann veitir eftir hvarf Anne-Elisabeth Hagen 31. október 2018.

NRK

NRKII (viðtalið í fréttatíma kvöldsins – frá 01:18)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert