Hringdi í fjölskyldu sína fyrir árásina

Yasin, bróðir Brahim Aouissaoui, heldur á mynd af Brahim.
Yasin, bróðir Brahim Aouissaoui, heldur á mynd af Brahim. AFP

Brahim Aouissaoui, sem sakaður er um að hafa notað eldhúshníf til að verða þremur að bana í kirkju í Nice í Frakklandi ræddi við fjölskyldu sína 12 klukkustundum fyrir árásina. Þar gaf hann ekkert upp um áform sín. Fjölskyldan hefur nú rætt við fréttamenn. 

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagðist í dag geta skilið það ef múslimar væru hneykslaðir á skopmynd af Múhammeð Spámanni. Skopmyndir af honum birtust í tímaritinu Charlie Hebdo snemma í september. Í kjölfarið voru tvær árásir framdar, fyrst þegar ráðist var á kennara og nú þegar ráðist var á fólkið í Nice.

Það vakti reiði á meðal múslima þegar Macron sagði að Frakkland myndi aldrei afsala sér rétti sínum á að birta skopmyndir. 

Macron gerði þó tilraun til að ná til múslima í löngu sjónvarpsviðtali við Al-Jazeera í dag og leitaðist við að slá mýkri tón í umræðuna. 

„Ég get skilið að skopteikningar gætu farið fyrir brjóstið á fólki en ég mun aldrei sætta mig við það að hægt sé að réttlæta ofbeldi,“ sagði Macron. „Ég tel það skyldu okkar að vernda frelsi okkar og réttindi.“

Nágranni huggar systur Brahims.
Nágranni huggar systur Brahims. AFP

Breytti hegðun sinni og fór að biðjast fyrir

Fjölskylda Aouissaoui ræddi við fréttamenn í gær. Hann ólst upp með átta systrum sínum og tveimur bræðrum á nokkuð venjulegu heimili í austurhluta Túnis. Hann hætti námi í menntaskóla og starfaði við hjólreiðaviðgerðar áður en hann kom sjálfur á fót lítilli bensínstöð, að sögn fjölskyldu hans. 

Eiturlyfjanotkun Aouissaoui varð til þess að hann varð góðkunningi lögreglunnar.

„Hann drakk áfengi og notaði eiturlyf. Ég sagði honum að við ættum ekki nóg og spurði hann hvers vegna hann eyddi peningum í slíkt,“ sagði móðir Aouissaoui.

Á síðustu tveimur árum varð fjölskylda hans vör við breytingar á hegðun hans. Hann fór að biðjast fyrir reglulega, hélt sig heima fyrir og hætti samskiptum við fyrrum vini sína. Eldri bróðir Aouissaoui segir þó að hann hafi aldrei sýnt af sér öfgafulla hegðun. 

Hann yfirgaf Túnis í september síðastliðnum og komst til Frakklands í vikunni. Hann hringdi í fjölskyldu sína og gerði henni viðvart um það kvöldið áður en honum er gefið að sök að hafa myrt þrjá í kirkju. Það var á fimmtudaginn. 

Hefur enn ekki verið yfirheyrður

Franska lögreglan hefur handtekið 47 ára gamlan mann sem var í samskiptum við Aouissaoui á miðvikudagskvöld en lögreglan hefur þó gefið það út að engar sannanir séu um að maðurinn hafi veitt Aouissaoui liðsinni.  

Aouissaoui var skotinn nokkrum sinnum af lögreglu og er nú í alvarlegu ástandi á spítala. Ekki hefur reynst mögulegt að yfirheyra hann.

mbl.is