Hvað er á kjörseðlunum?

Kjósendur vestanhafs munu geta valið um fleira en bara forseta.
Kjósendur vestanhafs munu geta valið um fleira en bara forseta. AFP

Samhliða komandi þing- og forsetakosningum munu Bandaríkjamenn geta kosið um allt frá úlfum og fánum til vímusveppa og veikindaleyfa þann 3. nóvember. Hér verður farið yfir nokkur dæmi.

Í Mississippi munu kjósendur geta kosið um nýjan fána, skreyttan magnólíutré, eftir að sá gamli, sem bar merki gömlu Suðurríkjanna, var lagður til hliðar í sumar í kjölfar mótmæla gegn ofbeldi lögreglu á hendur svörtu fólki.

Þannig munu þeir kjósa um hvort taka eigi upp nýja fánann eða finna einhvern annan.

Á sama tíma þurfa kjósendur í minnsta ríki Bandaríkjanna, sem opinberlega ber heitið „State of Rhode Island and Providence Plantations“, að svara því hvort þeir vilji stytta heitið og taka þar með út vísunina til stóru plantekranna þar sem þrælar voru látnir vinna.

Sama spurning var lögð fyrir þá í kosningunum árið 2010. Þá var breytingunni hafnað.

Í Kaliforníu er tekist á um Uber og Lyft.
Í Kaliforníu er tekist á um Uber og Lyft. AFP

Kosið um Uber og Lyft

Í Kaliforníu verður á atkvæðaseðlinum spurning sem gæti haft mikil áhrif á rekstur fyrirtækja á borð við Uber og Lyft. Spurt er í raun hvort bílstjórar á þeirra vegum séu hreinlega starfsmenn þeirra, eða hvort þeir séu sjálfstæðir verktakar.

Bæði fyrirtækin hafa varið milljónum bandaríkjadala til að fá kjósendur á sitt band og hafna lögum sem tóku gildi fyrr á árinu, og kváðu á um að þau þyrftu að greiða bílstjórunum lágmarkslaun, veita þeim reglubundið leyfi og leggja fram atvinnuleysisbætur.

Kjósendur í ríkinu munu einnig geta valið að breyta einu grundvallaratriði í réttarkerfinu. Á að afnema fyrirkomulagið þar sem hægt er að forðast fangelsisvist með greiðslu tryggingar, og að í stað þess muni dómari meta hvort ákærðir menn gangi lausir í samfélaginu?

Stuðningsmenn þeirrar breytingar segja núgildandi fyrirkomulag bitna á þeim sem ekki hafa efni á að borga trygginguna. Aðrir segja að breytingin gæti valdið því að fleiri þurfi að sitja á bak við lás og slá.

Veikindaleyfi og úlfar

Átta ríki, auk höfuðborgarinnar Washington, hafa þegar gefið íbúum sínum réttindi til veikindaleyfis án þess að hafa komið því til leiðar í gegnum kjörkassana.

Í Colorado verða kjósendur hins vegar spurðir á þriðjudaginn hvort íbúar eigi að öðlast rétt á allt að tólf vikna veikindaleyfi, sem fjármagnað yrði með tekjuskatti.

Mörgum Bandaríkjamönnum hugnast yfirleitt ekki slíkar ráðstafanir en heimsfaraldur kórónuveirunnar gæti hafa snúið einhverjum.

Þar munu íbúar einnig geta kosið að láta yfirvöld skipuleggja endurkomu grárra úlfa í ríkið, en þeir hurfu þaðan á fimmta áratug síðustu aldar. Hugmyndin er sú, samkvæmt umfjöllun Colorado Sun, að tengja saman úlfastofnana norðan og sunnan við ríkið og hjálpa þannig tegundinni að ná sér aftur á strik.

Bændur og veiðimenn hafa þó sínar efasemdir.

Gamli fáni Mississippi var tekinn úr notkun í sumar.
Gamli fáni Mississippi var tekinn úr notkun í sumar. AFP

Maríjúana og sveppir

Eins og íbúar annarra ríkja hafa þegar kosið um, og samþykkt, munu kjósendur í Arizona, Montana, New Jersey og Suður-Dakóta hafa val um það hvort leyfa eigi notkun maríjúana í ríkjunum.

Í íhaldssama ríkinu Mississippi verða kjósendur á sama tíma spurðir hvort þeir séu reiðubúnir að lögleiða notkun efnisins í lækningaskyni.

Oregon-ríki er komið öllu lengra. Þar verða íbúar spurðir hvort nota megi ákveðna vímusveppi við meðferð fólks með geðsjúkdóma á borð við þunglyndi. Kjósendur í Washington-borg gætu einnig afnumið refsingu við notkun þeirra.

Þungunarrof

Í Louisiana er kosið um stjórnarskrárbreytingu. Bæta á inn orðalagi þar sem segir að ríkið veiti enga vörn réttindum til þungunarrofs og veiti sömuleiðis ekki fé til þeirra.

Áformin hafa verið gagnrýnd og yfirvöld sökuð um að búa sig undir mögulegan viðsnúning Hæstaréttar Bandaríkjanna á dómi frá árinu 1973, þar sem niðurstaðan var sú að Bandaríkjamenn hefðu rétt á þungunarrofi.

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í vikunni þriðja dómarann sem forsetinn Donald Trump hefur tilnefnt og um leið ýtt undir vonir þeirra sem vilja að rétturinn úrskurði að nýju um álitaefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert