Íhugar að skipa fólki aftur að halda sig heima

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur hér tekið niður grímuna til …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur hér tekið niður grímuna til þess að fá sér kaffisopa í heimsókn sinni á Royal Berkshire spítalann í Reading í vesturhluta Lundúna. AFP

Forsætisráðherra Bretlands íhugar nú að gefa út nýja skipun um að fólk haldi sig heima. Til skoðunar eru hertar aðgerðir sem ná yfir allt England vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þær verða hugsanlega kynntar á mánudag. BBC greinir frá þessu. 

Spár sem fréttamenn BBC hafa séð benda til þess að mun fleiri muni falla frá vegna Covid-19 en í fyrstu bylgju faraldursins, nema frekari aðgerðir verði kynntar.

Samkvæmt einu spálíkani gætu dauðsföll náð 4.000 daglega. Líkanið er byggt á því að engum frekari aðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins sé komið á. 

Innlagnir nái hápunkti í desember

Flest spálíkön um stöðuna í Bretlandi benda til þess að flest yrðu dagleg dauðsföll 2.000. Þegar faraldurinn stóð sem hæst í Bretlandi voru dagleg dauðsföll þar um 1.000 talsins. 

Tíðni smita fer hækkandi víða um Evrópu og hefur orðið til þess að aðgerðir voru hertar víða, t.d. í Belgíu, Frakklandi og Þýskalandi. 

Umræddar spár gera ráð fyrir því að innlögnum á sjúkrahús eigi eftir að fjölga í Bretlandi og þær muni ná hápunkti um miðjan desember. Þeim muni fara að fækka í byrjun janúar. Spárnar vara við því að möguleiki sé á að heilbrigðiskerfið geti ekki ráðið við álagið. 

mbl.is