Tugþúsundir mótmæla Lúkasjenkó

Þungvopnaðir lögreglumenn tvístruðu mótmælendum í Minsk.
Þungvopnaðir lögreglumenn tvístruðu mótmælendum í Minsk. AFP

Andstæðingar Alexanders Lúkasjenkós forseta í Hvíta-Rússlandi mótmælu stjórn hans í tugþúsundatali í dag með kröfugöngu frá miðju höfuðborgarinnar Minsk til svæðis í útjaðri hennar sem notað var undir aftökur á tímum Stalíns.

Lúkasjenkó hafði hótað því í vikunni að sýna mótmælendum enga miskunn skyldi koma til átaka milli þeirra og lögreglu, og varð það raunin í dag, en samkvæmt AFP-fréttaveitunni beitti lögregla mótmælendur ofbeldi og heyrðust jafnvel skothljóð þegar mest lét.

Tilgangur mótmælagöngunnar var bæði að minnast fórnarlamba Stalínstímabilsins og að halda í þann þrýsting sem uppi hefur verið í landinu síðan Lúkasjenkó tók völdin eftir umdeildar kosningar í ágúst.

Alexander Lúkasjenkó tók við forsetaembættinu í ágúst.
Alexander Lúkasjenkó tók við forsetaembættinu í ágúst. AFP

Hvítrússneskur verkfræðingur að nafni Yakov segir landa sína vera orðna „mjög þreytta“. „Við mótmælum friðsamlega – þá lemja þeir okkur. Við efnum til verkfalls – þá reka þeir okkur og vísa börnunum okkar úr háskóla,“ sagði hann.

Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi höfðu þegar hótað því að nota skotvopn til að tvístra mótmælendum, og hafa aðgerðir stjórnvalda eftir forsetakjörið leitt mörg ríki Vesturlandanna til að beita viðskiptaþvingunum gegn þeim. Þá neitar Evrópusambandið að viðurkenna Lúkasjenkó sem forseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert