Búa sig undir óeirðir

Fyrir utan Dolce & Gabbana-búðina á 5. breiðstræti New York-borgar …
Fyrir utan Dolce & Gabbana-búðina á 5. breiðstræti New York-borgar í gær. AFP

Mikil óvissa ríkir vestanhafs um hvenær úrslit forsetakosninganna verða að fullu ljós. Fjöldi utankjörfundaratkvæða hefur aldrei verið meiri og mismunandi er á milli ríkja hvort póstlögð atkvæði megi berast eftir kjördag, og einnig hvenær beri að telja þau.

Þessar staðreyndir, ásamt takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins og hræðsluáróðurs Bandaríkjaforseta, gera það að verkum að margir óttast að óeirðir geti brotist út á morgun.

Í varúðarskyni hafa fyrirtæki víða gripið til þess ráðs að byrgja fyrir glugga sína til að koma í veg fyrir möguleg innbrot, stuld og skemmdir.

Fimm fjöldafundir í dag

Kosningarnar tröllríða nú öllu og til marks um það hafa nærri hundrað milljónir manna þegar greitt atkvæði, þótt faraldurinn eigi þar einnig hlut að máli. Í sumum ríkjum á borð við Texas hafa fleiri þegar greitt atkvæði en samtals í kosningunum árið 2016.

Þegar minna en sólarhringur er til stefnu sýna kannanir að það er á brattann að sækja fyrir forsetann. Hann lætur ekki deigan síga og mun í dag halda fimm fjöldafundi í fjórum barátturíkjum: Norður-Karólínu, Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin.

Mótframbjóðandinn Joe Biden verður einnig í Pennsylvaníu, ásamt poppstjörnunni Lady Gaga, og sömuleiðis í Cleveland í Ohio.

Fyrrverandi forsetinn Barack Obama mun á sama tíma halda kosningafund í Georgíu áður en hann heldur annan slíkan í Miami.

Kona gengur fram hjá versluninni Sachs Fifth Avenue í New …
Kona gengur fram hjá versluninni Sachs Fifth Avenue í New York í gær. Þar hefur verið byrgt fyrir glugga þar sem búist er við óeirðum í kjölfar forsetakosninganna. AFP

Ekki að fara að stela kosningunum

Greint var frá því í gærkvöldi vestanhafs að Trump hygðist lýsa yfir sigri annað kvöld ef útlit væri fyrir að hann hefði forskot á keppinaut sinn. Hermt er að Trump hafi einslega rætt þessa sviðsmynd í nokkrum smáatriðum við starfsfólk sitt undanfarnar vikur.

Forsetinn svaraði þessum ásökunum í dag og sagði þetta ekki rétt. Hann endurtók þó fullyrðingu sína um að ekki sé sanngjarnt að þurfa að bíða lengi eftir úrslitum kosninganna.

Hann hefur ítrekað áður fullyrt, án nokkurra sannana, að póstlögð atkvæði bjóði upp á kosningasvindl. Þá hefur hann varað við ringulreið verði sigurvegari ekki ljós fljótt eftir kosningarnar.

Spurður út í þessar fregnir sagði Biden: „Forsetinn er ekki að fara að stela þessum kosningum.“

mbl.is