Krefjast þess að fá málverkið afhent

Bild mit Häusern eftir Wassily Kandinsky.
Bild mit Häusern eftir Wassily Kandinsky. Ljósmynd/Af vef Stedelijk Museum

Hollensk gyðingafjölskylda hefur höfðað mál gegn Stedelijk-safninu í Amsterdam en fjölskyldan krefst þess að fá afhent málverk eftir Wassily Kandinsky sem var komið fyrir á safninu í seinni heimsstyrjöldinni eftir að nasistar hertóku Holland. Málverkið er metið á 20 milljónir evra, sem svarar til 3,3 milljarða króna. Fjölskyldan sakar ráðgjafarnefnd á vegum hins opinbera um hlutdrægni eftir að nefndin úrskurðaði þeim í óhag. Fjallað er um málið á vef Guardian.

Lögmenn erfingja Roberts Lewensteins, sem flúði til Frakklands árið 1940, segja að um hagsmunaárekstra sé að ræða innan úrskurðarnefndarinnar sem ráðleggur stjórnvöldum þegar ræðir um listmuni sem stolið var af gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Hvort rétt sé að skila viðkomandi munum eða ekki.

Stedelijk-safnið í Amsterdam.
Stedelijk-safnið í Amsterdam. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þrjú úr Lewenstein-fjölskyldunni, Robert Lewenstein, Francesca Davis og Elsa Guidotti, hafa óskað eftir að fá málverkið Bild mit Häusern, sem rússneski málarinn málaði árið 1909, afhent en ekki hefur verið orðið við þeirri beiðni fjölskyldunnar. Málið er nú rekið fyrir dómi í Amsterdam.

Verkið var selt á útsöluverði til borgarstjórnar Amsterdam, sem rekur Stedelijk-safnið, á uppboði hjá Frederik Muller-uppboðshúsinu 9. október 1940. Nasistar höfðu hertekið Holland fimm mánuðum áður. Lewenstein og eiginkona hans flúðu til Frakklands áður en málverkið var selt á uppboði.

Nefndin var sett á laggirnar árið 2002 til þess að úrskurða í kröfugerðum sem þessari. Nefndin úrskurðaði árið 2018 að málverkið ætti að vera áfram á safninu. Ákvörðunin byggðist á því að fjármál fjölskyldunnar hefðu verið farin að versna fyrir stríð og hún því viljað selja verkið. Eins að borgarstjórnin hefði keypt verkið í góðri trú.

Simon van der Sluijs, lögmaður fjölskyldunnar, sagði fyrir dómi að það væri fáránlegt að segja að salan á verkinu hefði verið af fúsum og frjálsum vilja. Strax eftir innrás Þjóðverja hefðu þeir rænt og ruplað listaverkum í Hollandi sem og víðar. Nasistar hefðu ruðst inn á skrifstofur fjölskyldunnar við Dam-torg og tekið verk í hennar eigu.

Annar lögmaður sem starfar fyrir erfingja Lewenstein segir að fjárhagsleg staða fjölskyldunnar hafi ekkert með söluna á verkinu að gera. Í september 1940 hafi 110 þúsund gyllini verið inni á bankareikningi Lewensteins. Robert Lewenstein hafi verið með yfir 5.200 gyllini í árstekjur og var einn þeirra 5% sem voru tekjuhæstir í Hollandi á þessum tíma.

Lögmennirnir segja að málverkið hafi verið keypt af borgarstjórninni á 160 gyllini. Ekkert bendi til þess að raunverulegur eigandi málverksins, Lewenstein, hafi fengið þá peninga í hendurnar.

Ásökunum um tengsl nefndarmanna við safnið var illa tekið af nefndarmönnum sem og safnstjóra, Rein Wolfs. Hann segir ekkert benda til þess að safnið hafi ekki gert rétt. Gagnsæi og varkárni einkenni starf þess og það geri sér fyllilega grein fyrir ábyrgð sinni í málum sem þessu.

Von er á að dómur falli í málinu 16. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert