Trump eigi 5-10% líkur á sigri

Reiknilíkan fréttavefsins FiveThirtyEight, sem tekur saman niðurstöður kannana, vegur þær og metur, gefur Donald Trump Bandaríkjaforseta 10% líkur á sigri í kosningunum sem fram fara á morgun.

Biden hefur á sama tíma 90% líkur á sigri samkvæmt líkaninu, sem líkir eftir kosningum 40 þúsund sinnum og skilar þeim niðurstöðum sem oftast verða.

Tímaritið Economist er öllu bjartsýnni á sigurlíkur Bidens og metur þær í kringum 95%.

Báðir miðlar telja yfirgnæfandi líkur á að Biden hljóti meirihluta greiddra atkvæða, sama hvort hann fer með sigur af hólmi eður ei.

Kannanir þurfi að vera enn vitlausari

Ljóst er að staða forsetans er snúin. Á vef New York Times er bent á að raunar þurfi niðurstöður kannana að vera enn vitlausari en þær voru árið 2016 til að hann eigi að hafa tækifæri á að halda áfram veru sinni í Hvíta húsinu.

Joe Biden muni þannig vinna, jafnvel þótt kannanirnar séu jafn rangar og þær voru þegar sigur Hillary Clinton þótti vís.

Á sama tíma er talið að þær endurspegli raunveruleikann betur í þetta sinnið. Annars vegar vegna þess að nú líta könnunarfyrirtækin einnig til menntunar svarenda, og hins vegar vegna þess að mun færri kjósendur eru óákveðnir nú en árið 2016.

Donald Trump á fjöldafundi í Flórída í dag.
Donald Trump á fjöldafundi í Flórída í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina