Handtóku 14 vegna hryðjuverkaárásar í Vín

Mikill viðbúnaður er í miðborg Vínar vegna árásarinnar.
Mikill viðbúnaður er í miðborg Vínar vegna árásarinnar. AFP

Lögreglan í Vín, höfuðborg Austurríkis, hefur handtekið 14 manns vegna hryðjuverkaárásar sem var framin í Vínarborg í gærkvöldi. Engin sönnunargögn hafa komið fram sem gefa til kynna að fleiri en einn hafi verið að verki, að sögn Karls Nehammers, innanríkisráðherra Austurríkis. 

„Lögreglan hefur ráðist inn í 18 húsakynni [mögulegra glæpamanna] í Vín og Neðra-Austurríki og 14 hafa verið handteknir,“ sagði Nehammer á blaðamannafundi í dag. 

Hann bætti við að lögregla teldi að hryðjuverkaárásin hefði verið framin af einum vopnuðum manni, Kujtim Fejzulai, 20 ára gömlum manni sem hliðhollur var Ríki íslams. Lögregla skaut hann til bana í gærkvöldi. 

Fylgjast vel með stuðningsmönnum Ríkis íslams

Lögreglan hafði áður leitað fleiri árásarmanna en myndbandsupptökur af árásinni benda ekki til þess að fleiri hafi verið þarna að verki. 

Herhard Puerstl, lögreglustjóri í Vínarborg, sagði að aðrir sem hefðu sýnt Ríki íslams stuðning væru nú undir eftirliti. 

„Sterkari viðvera lögreglu mun halda áfram,“ bætti hann við. 

Fejzulai, sem var bæði austurrískur og makedónskur ríkisborgari, var sakfelldur fyrir hryðjuverkabrot í apríl í fyrra fyrir að hafa reynt að ferðast til Sýrlands. Hann var dæmdur í 22 mánaða fangelsi í apríl en látinn laus á skilorði í desember síðastliðnum. 

Nehammer sagði að Fejzulai hefði tekið þátt í betrunaráætlun sem miðar að því að af-róttæknihæna (e. de-radicalize) þá sem sýna öfgasamtökum stuðning. 

„Gerandanum tókst að blekkja réttarkerfið, fólkið í áætluninni og losna fyrr úr fangelsi með því móti,“ sagði Nehammer. 

Spurður hvort áætlunin hefði brugðist sagði Nehammer að galli væri í kerfinu. Þótt hann vildi ekki benda á neinn ákveðinn þyrfti nú að skoða mjög vel hvað mætti bæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert