Tekur ekki í mál að óttast eða hata

Mikael Torfason rithöfundur er búsettur í Vín ásamt fjölskyldu sinni.
Mikael Torfason rithöfundur er búsettur í Vín ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Matthias Horn/Burgtheater

„Yfir höfuð vakir fyrir svona mönnum að ala á ótta og hatri og maður bara tekur það ekki í mál. Það er ekki fræðilegur möguleiki,“ segir Mikael Torfason rithöfundur sem búsettur er í Vín í Austurríki um hryðjuverkaárásir sem voru framdar þar í gærkvöldi, aðeins kílómetra frá heimili Mikaels og fjölskyldu hans.

Fjórir létust í árásunum og var árásarmaðurinn felldur. Óvíst er hvort maðurinn hafi verið einn að verki en fleiri mögulegra árásarmanna er leitað. Fólk hefur verið beðið að halda sig heima í dag.

Mikael segir að það hafi verið sláandi og leiðinlegt að frétta af árásunum í gærkvöldi, sérstaklega vegna þess að Vín sé þekkt fyrir að vera ein af friðsælustu og fjölskylduvænustu borgum heims.

„Þannig að þetta er mikið áfall fyrir alla borgarbúa og ofboðslega leiðinlegt,“ segir Mikael.

„Við búum í svona eins kílómetra fjarlægð frá árásunum. Fljótlega eftir að við sáum þetta í fréttum heyrðum við líka í þyrlum og lögreglusírenum. Það var greinilega mikill viðbúnaður í borginni í gær og í dag. Í dag er foreldrum ráðlagt að vera með börn heima ef því verður komið við, fara ekki með þau í leikskóla og skóla vegna þess að þeir eru að rannsaka hvort þessi maður hafi verið einn að verki eða hvort eitthvað fleira sé í bígerð sem mér skilst nú að séu minni líkur á en ella núna, að þetta hafi hugsanlega bara verið hann einn.“

Aðeins færri börn á ferli

Í dag tóku gildi hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins í Austurríki. Veitinga- og skemmtistöðum hefur nú verið lokað og útgöngubanni komið á á milli átta að kvöldi og sex að morgni.

„Þessi hryðjuverkamaður hefur líklega notað tækifærið og ætlað að fremja þessa árás í von um að það væru fleiri niðri í bæ á þessum tíma, rétt fyrir útgöngubann,“ segir Mikael.  

Er fólk á ferli í dag?

„Vín er rosalega friðsæl borg þar sem börn stökkva upp í sporvagna og lestir, eins og Reykjavík þannig þótt þetta sé aðeins stærri borg. Hún er ekki flokkuð sem stórborg, það er mikið frjálslyndi hérna og frelsi sem allir finna. Það eru aðeins færri börn á ferli en vant er.“

Mikael býr í Vín ásamt eiginkonu sinni Elmu Stefaníu Ágústsdóttur leikkonu og tveimur dætrum þeirra. Hann segir að árásin breyti ekki sýn hans á Vín og öryggi barna hans þar. Hann bendir á að víða þar sem sambærilegar árásir hafi verið framdar taki fólk þá afstöðu að láta það ekki aftra sér í lífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert