Þrír látnir – fjöldi árásarmanna enn óljós

Tveir karlar og ein kona eru látin eftir hryðjuverkaárás í Vín. Árásarmaður var einnig skotinn til bana af lögreglu og er hann fylgismaður vígasamtakanna Ríkis íslams að sögn innanríkisráðherra Austurríkis, Karls Nehammers. 15 eru særðir eftir árásina, þar á meðal lögreglumaður. Sjö þeirra eru í lífshættu eða mjög alvarlega særðir. 

Árásarmaðurinn sem var skotinn af lögreglu var þungvopnaður og með sprengjubelti en það reyndist falsað. Nehammer sagði á blaðamannafundi í nótt að árásarmaðurinn hefði öfgavæðst og fylgt Ríki íslams. Lögregla gerði húsleit á heimili hans í nótt en talið er að árásarmennirnir séu jafnvel fleiri og biður Nehammer íbúa Vínarborgar að halda sig heima í dag. 

Lögreglustjórinn í Vín, Franz Ruf, segir að þriðja fórnarlambið hafi látist á sjúkrahúsi í nótt. Ekki hafa fengist upplýsingar um hvort eitthvað hafi fundist á heimili árásarmannsins sem tengist árásinni hjá lögreglu en Nehammer greindi frá því á blaðamannafundinum að þar hefði verið lagt hald á myndefni tengt Ríki íslams.

Eins og áður sagði er ekki ljóst hversu margir árásarmennirnir voru en talið að þeir hljóti að hafa verið fleiri en einn þar sem skotárásirnar voru framdar á sex stöðum í miðborginni. Sú fyrsta um klukkan 20 að staðartíma í gærkvöldi. 

Árásin var gerð skömmu áður en hertar sóttvarnareglur tóku gildi í Austurríki og voru fjölmargir borgarbúar á veitingastöðum og börum að njóta síðustu klukkustundanna áður en þeim yrði lokað og íbúum gert að halda sig heima vegna Covid-19.

Árásin hófst við Stadttempel-bænahús gyðinga í miðborginni og segja vitni að árásarmaðurinn hafi skotið eins og „vitfirringur“ á allt sem fyrir varð. „Við héldum að þetta væru flugeldar en síðan áttuðum við okkur á því að þetta voru skothvellir,“ segir einn þeirra sem urðu vitni að árásinni. 

Lögreglan er að fara í gegnum rúmlega 20 þúsund myndskeið sem almenningur tók af árásinni og vonast til þess að þau geti varpað ljósi á atburðarásina í gærkvöldi. Enn er ekki vitað hversu margir árásarmennirnir eru og er fólk varað við því að þeir geti verið fleiri en sá sem lögregla skaut til bana. Þeir séu hættulegir og vopnaðir. Lögreglustjórinn í Vín, Gerhard Pürstl, segir að allar líkur séu á að þeir hafi verið fleiri. 

„Það er erfitt að segja það með fullri vissu hvort árásarmaðurinn var einn eða þeir fleiri. Margir þeirra sem urðu vitni að árásinni særðust eða eru í áfalli. Því verðum við að fara betur í gegnum gögnin,“ segir hann og að það muni taka tíma. Eftirlit hefur verið hert á landamærum Austurríkis. 

Pürstl tók þátt í blaðamannafundinum snemma í morgun með Nehammer. Ekki var upplýst um það á fundinum í morgun hvort einhverjir hefðu verið handteknir í íbúð árásarmannsins eða hvort einhverjir hefðu verið þar er lögregla braust þangað inn. 

Bætt við klukkan 7:17

Austurríska ríkissjónvarpið, ORF, greinir frá því að nokkrir hafi verið handteknir og að sjö lögreglumenn hafi beitt vopnum sínum í gærkvöldi vegna hryðjuverkaárásarinnar. 

Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, segir austurrísku þjóðina upplifa erfiða tíma og lögregla muni beita hörku gegn þeim sem stóðu á bak við hryðjuverkaárásina. Aldrei verði látið undan hryðjuverkum og barist gegn þeim af fullum þunga.

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, segir að Frakkar séu í áfalli og Evrópa verði að standa saman gegn óvinum álfunnar. Utanríkisráðherra Þýskalands tekur í svipaðan streng og forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, einnig. Hann segir hug Breta vera með Austurríkismönnum og standi með þeim í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Frétt BBC

Frétt Guardian

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert