Er mark takandi á könnunum?

Brandarakallar líkja eftir Trump og Biden í New York.
Brandarakallar líkja eftir Trump og Biden í New York. AFP

Of snemmt er að segja til um hvort Donald Trump hafi verið endurkjörinn forseti Bandaríkjanna eða Joe Biden taki við embættinu eftir forsetakosningar vestanhafs í gær. Skoðanakannanir gerðu langflestar ráð fyrir sigri Bidens en mjótt er á mununum og niðurstaða jafnvel ekki væntanleg fyrr en að einhverjum dögum liðnum.

Banda­ríski vef­miðill­inn FiveT­hirtyEig­ht, sem sér­hæf­ir sig í að segja fyrir um úr­slit kosn­inga með því að taka sam­an og vega niður­stöður kann­ana, taldi í gær líkur Trumps á sigri 5-10%. 

Donald Trump og Joe Biden.
Donald Trump og Joe Biden. AFP

Fyrir forsetakosningarnar árið 2016 bentu kannanir til þess að Hillary Clinton bæri sigur úr býtum en sú varð þó ekki raunin og Trump vonast nú til þess að þurfa ekki að flytja úr Hvíta húsinu fyrr en að fjórum árum liðnum.

Bandarískir fjölmiðlar bentu á í aðdraganda kosninganna að niðurstöður kannana nú þyrftu að vera „enn vitlausari“ en þær voru fyrir fjórum árum til að Trump ætti möguleika á endurkjöri. 

Stuðningsmenn forsetans eru bjartsýnir.
Stuðningsmenn forsetans eru bjartsýnir. AFP

Enn fremur voru kannanir í aðdraganda núverandi kosninga sagðar endurspegla raunveruleikann betur núna. Var meðal annars sagt að litið væri til menntunar svarenda og mun færri væru óákveðnir í ár.

Þrátt fyrir það er enn óljóst hvor eldri borgarinn, Donald Trump eða Joe Biden, mun búa í Hvíta húsinu næstu fjögur árin. Eins og staðan er núna, miðað við við gögn frá helstu fjöl­miðlum vest­an­hafs sem jafn­an spá um úr­slit um leið og þau þykja ljós, er Biden búinn að tryggja sér 238 kjörmenn og Trump 213 en 270 kjör­menn þarf til að sigra í kosn­ing­un­um.

Í grein ástralska fjölmiðilsins Sydney Morning Herald eru ýmsar ástæður fyrir skekkju á milli kannana og niðurstöðu kosninga tíndar til. 

Meðal annars er bent á að opinberlega séu stuðningsmenn Trumps kallaðir öllum illum nöfnum, eins og rasistar eða jafnvel eitthvað verra, og því láti þeir oft ekki skoðanir sínar opinberlega í ljós. Það eigi einnig við um nafnlausar símakannanir eða netkannanir.

Þessi styður Biden.
Þessi styður Biden. AFP

Enn fremur er bent á að svarhlutfall í könnunum almennt sé afar lágt og fólk forðist að einhverju leyti að taka upp tólið til að svara fyrir afstöðu sína. 

Fjölmargir twittverjar spyrja sig hvers vegna kannanir standist jafn illa og raunin virðist vera. Er þá einhver ástæða til að kanna málin í aðdraganda kosninga ef lítið virðist að marka þær?





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert