Úrsögn úr Parísarsamkomulaginu tekið gildi

Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði það að kosningaloforði sínu fyrir síðustu …
Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði það að kosningaloforði sínu fyrir síðustu kosningar að Bandaríkin segðu sig frá samkomulaginu. Nú hefur það verið uppfyllt, á elleftu stundu. AFP

Bandaríkin urðu í dag fyrista ríkið til að segja sig frá Parísarsamkomulaginu. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um úrsögnina í júní 2017 en samkvæmt reglum gat úrsögnin ekki tekið gildi fyrr en í dag.

Parísarsamkomulagið var undirritað í nóvember 2016 en þar skuldbundu 190 ríki heims sig til að um að halda hlýnun jarðar „vel innan við“ tvær gráður frá því hitastigi sem var fyrir iðnbyltinguna.

Bandaríkin eru ábyrg fyrir um 15% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, hefur heitið því að ganga aftur að samkomulaginu verði hann kjörinn forseti.

Í frétt BBC segir að úrsögnin sé til þess fallin að draga úr trúverðugleika Bandaríkjanna. Ríkisstjórn Bills Clinton reyndi árið 1997 að fá öldungadeild þingsins til að samþykkja þáverandi loftslagssamning, Kyotobókunina, en það gekk ekki eftir enda repúblikanar í meirihluta.

„Þetta er í annað sinn sem Bandaríkin hafa verið aðaldrifkrafturinn að baki nýju loftslagssamkomulagi — en öldungadeildin samþykkti aldrei Kyoto-bókunina og nú yfirgefum við Parísarsamkomulagið. Þetta er augljóst vandamál,“ segir Andrew Light, fyrrverandi aðstoðarmaður Barack Obama á sviði umhverfismála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert