Ákærður fyrir að fagna afhöfðun kennara

Vegfarendur í Conflans-Sainte-Honorie, 30 kílómetrum norðvestur af París, fara framhjá …
Vegfarendur í Conflans-Sainte-Honorie, 30 kílómetrum norðvestur af París, fara framhjá skilti þar sem Paty er minnst. AFP

Unglingur hefur verið ákærður í frönsku borginni Marseille fyrir stuðning við hryðjuverk vegna ummæla hans í tengslum við morðið á kennaranum Samuel Paty. Saksóknari greindi frá þessu í dag.

Fjórtán ára drengur af afgönskum uppruna fagnaði morðinu í skólastofu sinni og sagði að hann „hefði gert það sama,“ að því er kom fram í dagblaðinu La Provence.

Drengnum var sleppt að lokinni yfirheyrslu en hann verður áfram undir eftirliti, að sögn Dominique Laurens, saksóknara í Marseille.

Sjö svona atvik sem tengjast skólum hafa verið skráð í Marseille í þessari viku, að sögn Bernard Beignier, yfirmanns menntamála í borginni. Þrjú þeirra eru sögð hafa falið í sér „réttlætingu á hryðjuverkum.“

Paty var afhöfðaður skammt frá skóla sínum í úthverfi Parísar í síðasta mánuði af 18 ára manni sem var ósáttur við að kennarinn sýndi nemendum skopmyndir af spámanninum Múhameð í kennslustund þar sem umfjöllunarefnið var málfrelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert