Hvar stöndum við núna?

Allt bendir til þess að Biden muni að lokum hafa …
Allt bendir til þess að Biden muni að lokum hafa sigur í Pennsylvaníu, og þar með forsetakosningunum. AFP

Að morgni þriðja dags eftir kjördag bandarísku forsetakosninganna er rétt að taka stöðuna eins og hún horfir við okkur núna.

Georgía

Joe Biden, frambjóðandi demókrata, hefur tekið forskotið í talningu atkvæða í Georgíu þegar rúmlega 99% atkvæða hafa verið talin. Talið er að um tíu þúsund kjörseðlar séu eftir, en þeir gætu verið fleiri.

Forskot Bidens í Georgíu nemur núna rétt rúmlega þúsund atkvæðum. Athugið til hliðsjónar að tæplega fimm milljónir atkvæða voru greiddar í ríkinu. Af þeim sökum er ólíklegt að nokkur stór fjölmiðill vestanhafs muni þora að taka af skarið og spá fyrir um sigur Bidens í Georgíu.

Síðasti forsetaframbjóðandi demókrata til að bera sigur úr býtum í ríkinu var Bill Clinton, árið 1992.

Arizona

Joe Biden hefur enn forskot á forsetann sitjandi í Arizona, en það hefur þó minnkað töluvert á undanförnum sólarhringum.

Einmitt núna nemur forskotið um 47 þúsund atkvæðum, þegar um 263 þúsund atkvæði eru enn ótalin, og jókst að vísu um nokkur hundruð atkvæði í nótt.

Fox News og AP-fréttaveitan fullyrtu strax á miðvikudag að Biden myndi fara með sigur af hólmi í ríkinu. Þær fullyrðingar hafa síðar reynst ansi djarfar, enda hefur enginn annar stór fjölmiðill vestanhafs enn þorað að fylgja í fótspor þeirra.

Nevada og Norður-Karólína

Forskot Bidens á Trump er agnarsmátt í Nevada á sama tíma og Trump hefur aðeins meira forskot á Biden í Norður-Karólínu.

Engar nýjar tölur frá ríkjunum bárust í nótt.

Í Nevada hafa um 89% atkvæða verið talin og standa um 190 þúsund eftir. Næstum öll þeirra eru frá Clark-sýslu, sem hýsir Las Vegas, en sýslan hefur verið sterkt vígi demókrata í ríkinu.

Miðað við gögn frá þessum tveimur ríkjum má búast við að Biden sigri að lokum í Nevada og Trump í N-Karólínu. Ekkert er þó gefið í þessum efnum frekar en fyrri daginn.

Pennsylvanía

Að ofangreindu virtu er ekki að undra að allra augu séu á veigamesta barátturíkinu sem eftir er í pottinum.

Forskot forsetans í Pennsylvaníu dalaði hratt í gærkvöldi og í nótt og er núna komið niður í um átján þúsund atkvæði, þegar um 95% atkvæða hafa verið talin.

Hátt í 200 þúsund atkvæði standa þar eftir ótalin. Mörg þeirra koma frá svæðum þar sem demókratar hafa notið mjög góðs fylgis, til að mynda í Philadelphiu og í Pittsburgh.

Það bendir því allt til þess að Biden muni taka fram úr Trump í Pennsylvaníu á einhverjum tímapunkti talningarinnar. Líklega mun það gerast í dag, að því er fram kemur í umfjöllun FiveThirtyEight, en þó er erfitt að segja til um það.

Um leið og Biden verður talinn munu bera sigur úr býtum í Pennsylvaníu, þá munu tuttugu kjörmenn ríkisins sjá til þess að hann verður um leið talinn næsti forseti Bandaríkjanna. Má hann þá engu skeyta um öll hin ríkin sem eftir eru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert