Macron vill endurskoða Schengen

Forseti Frakklands Emmanuel Macron í heimsókn sinni á landamærasvæði milli …
Forseti Frakklands Emmanuel Macron í heimsókn sinni á landamærasvæði milli Frakklands og Spánar. AFP

Emmalnuel Macron forseti Frakklands heitir gagngerri endurskoðun á ferðafrelsi innan Evrópusambandsins vegna nýlegra hryðjuverkaárása. Þetta kemur fram á vef Euobserver í dag.

„Ég er hlynntur algjörri endurskoðun á Schengen, að skipulag verði endurskoðað svo að styrkja megi sameiginlegt landamæraeftirlit með öflugri gæslu,“ sagði Macron á ferð sinni nálægt landamærum Frakklands og Spánar. Vísaði Macron þannig í  ferðalög um innri landamæri Schengen-svæðisins sem krefjast ekki vegabréfa.

Hættan á hryðjuverkaárás allsstaðar

Macron sagði nýlegar árásir öfgamanna í París, Nice og í Vín sýna að hættan á hryðjuveraárás sé allsstaðar.

Árásamennirnir í París og Vín voru búsettir í Evrópu innan Schengen svæðisins en „í Nice hafði  hryðjuverkamaðurinn sem myrti þrjá landa okkar farið yfir nokkur landamæri áður en hann lét til skara skríða“ bætti Macron við. Sá árásamaður kom frá Túnis til Ítalíu sjóleiðis og fór þaðan til Frakklands með lest.

Maðurinn sem framdi ódæðið í Vín hafði farið yfir landamæri Slóvakíu til að freista þess að kaupa skotvopn þrátt fyrir að eiga sakaferil í Austurríki fyrir tilraun til þess að skipuleggja hryðjuverk.

„Við verðum að herða okkur í baráttunni við ólöglega innflytjendur sem í auknum mæli tengjast hryðjuverkasamtökum,“ sagði Macron.

Macron heitir því að leggja til breytingar um aukna landamæragæslu á næsta leiðtogafundi ESB sem fram fer í desember.

Ítalir telja áhættuna mikla

Varnarmálaráðherra Ítalíu Luigi Di Maio sagði á miðvikudaginn áhættuna af algjöru ferðafrelsi of mikla. „Hver sem er getur komið inn í eitt af Schengen löndunum og farið þvert yfir Evrópu. Áhættan er of mikil og varnarleysi Evrópu of mikið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina