Yfirmanni hryðjuverkadeildar vikið úr starfi

Trúarleiðtogar í Austurríki minnast fórnarlambanna.
Trúarleiðtogar í Austurríki minnast fórnarlambanna. AFP

Yfirmanni hryðjuverkadeildar lögreglunnar í Vín í Austurríki var vikið úr starfi í dag eftir að fregnir bárust um fleiri mistök í öryggismálum sem voru gerð í aðdraganda hryðjuverkaárásarinnar í borginni. Fjórir létust í árásinni, sem var sú fyrsta í landinu í áratugi.

Erich Zwettler, yfirmaður hryðjuverkadeildarinnar, óskaði eftir því að vera leystur frá störfum, að sögn Gerhards Puerstl, lögreglustjórans í Vín, eftir að í ljós kom að hægt hefði verið að koma í veg fyrir ódæðið.

Gerhard Puerstl á blaðamannafundi í dag.
Gerhard Puerstl á blaðamannafundi í dag. AFP

Tvítugur maður sem áður hafði verið fangelsaður í Austurríki fyrir afbrot tengt hryðjuverkum hóf skothríð á fólk með hríðskotabyssu í miðborg Vínar.

Karl Nehammer, innanríkisráðherra Austurríkis, sagði að Zwettler gæti ekki haldið áfram störfum í ljósi „augljósra og óásættanlegra“ mistaka. Árásarmaðurinn Kujtim Fejzulai hafði verið í samskiptum við fólk sem þýska leyniþjónustan hafði fylgst með.

Ábending frá Þýskalandi vegna þessara funda leiddi ekki til þess að eftirlit með Fejzulai var aukið. Honum hafði þá nýlega verið sleppt úr fangelsi.

Fyrr í þessari viku kom í ljós að starfsmenn austurrísku leyniþjónustunnar höfðu einnig verið varaðir við því af Slóvökum að Fejzulai hefði reynt að kaupa skotfæri fyrr á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert