Þjóðarleiðtogar senda Biden og Harris hamingjuóskir

Joe Biden og Kamala Harris.
Joe Biden og Kamala Harris. AFP

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa sent Joe Biden hamingjuóskir, en fyrr í dag greindu allir helstu fréttamiðlar vestanhafs frá því að Biden hefði verið sigurvegari forsetakosninganna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, sendi bæði Biden og varaforsetaefni hans, Kamölu Harris, heillaóskir. Tók hún fram í skilaboðum sínum á twitter að hún væri spennt að vinna að því að styrkja tengsl Íslands og Bandaríkjanna í tengslum við loftslagsmál og mannréttindamál.Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í skilaboðum sínum að hann væri tilbúinn í samvinnu og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, óskaði Biden til hamingju með kosningarnar og tók sérstaklega fram sögulegt afrek Kamölu Harris, en hún verður fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta.

Sagði Johnson í tísti á twitter að Bandaríkin væru mikilvægasta bandaþjóð Bretlands og hann sæi fram á að vinna náið með Biden að sameiginlegum markmiðum, frá loftslagsmálum til viðskipta og öryggismála.

mbl.is