Er rétt að hafa áhyggjur af minka-Covid?

Öllum minkum Danmerkur verður slátrað.
Öllum minkum Danmerkur verður slátrað. AFP

Kórónuveirusmit milli minka og manna þýða ekki endilega að sjúkdómurinn verði hættulegri eða meira smitandi, en vísindamenn eru á tánum eftir að ótrúlegar fréttir bárust frá Danmörku í síðustu viku.

Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti á miðvikudag að yfir 15 milljónir minka hefðu verið drepnir eftir að afbrigði af SARS-CoV-2, kórónuveirunni, hefði borist frá minkum yfir til tólf manna. Talað er um að nýja afbrigðið gæti haft áhrif á virkni mögulegs bóluefnis. Á Íslandi og víðar verður skimað fyrir veirunni meðal minka.

Fjölmiðlar og almenningur um allan heim tóku andköf enda kórónuveirufaraldurinn nógu ógnvekjandi fyrir, hafandi dregið 1,2 milljónir manna um heim allan til dauða.

„Ég vildi óska að það legðist af að tilkynna um vísindi í fréttatilkynningum,“ segir Angela Rasmussen, veirufræðingur við Columbia-háskóla í New York. „Það er engin ástæða fyrir því að ekki sé hægt að deila erfðamengi [minkaveirunnar] sem hefði leyft vísindasamfélaginu að leggja mat á fullyrðingarnar,“ skrifar hún á Twitter.

Önnur veira?

Veirur, eins og kórónuveiran sem kom upp í lok síðasta árs, stökkbreytast stöðugt en ný afbrigði eru ekki endilega hættulegri eða meira smitandi en þau sem á undan komu.

Minkasmit eru ekki heldur glæný, en þegar höfðu komið upp tilfelli í Svíþjóð, Hollandi, Spáni og Bandaríkjunum. Nokkur dæmi voru þá uppi um menn sem höfðu smitast af minkum. Danir hafa hins vegar lýst því að um nýtt afbrigði sé að ræða. 

„Samkvæmt upplýsingum frá dönskum yfirvöldum er veiran hvorki meira sjúkdómsvaldandi né meira smitandi,“ segir Gilles Salvat hjá frönsku heilbrigðisstofnuninni Anes í samtali við AFP. Áhyggjurnar snúi frekar að því að afbrigðið hegði sér eins og „önnur veira og skeki samfélagið“.

„Það er nógu erfitt að finna upp bóluefni fyrir eitt afbrigði, en ef við þurfum að gera það fyrir tvö, fjögur eða jafnvel sex þá er það enn flóknara,“ segir Salvat. Ver hann því þá ákvörðun danskra yfirvalda að slátra öllum minkum í öryggisskyni.

Réttlætanlegt frá heilbrigðissjónarmiði

Francois Balloux, kennari við UCL í London, tekur undir þetta. „Þessar aðgerðir eru algjörlega réttlætanlegar frá heilbrigðissjónarmiði til að koma í veg fyrir dreifingu hættulegrar veiru,“ segir hann.

Segir hann engu að síður að áhyggjur af öðrum faraldri séu fullmikið af hinu góða. Benti hann á að svipaðar stökkbreytingar væru til meðal manna og þær hefðu ekki dreift sér.

Ekki væri þó „algjörlega útilokað“ að nýtt afbrigði gæti dreift sér og haft áhrif á virkni bóluefnis.

mbl.is