Fundu erfðaefni löngu horfinnar stúlku

Therese Johannessen var níu ára gömul þegar hún hvarf sporlaust …
Therese Johannessen var níu ára gömul þegar hún hvarf sporlaust eftir að hafa skroppið út í sjoppu til að kaupa sælgæti sumarið 1988. Nýjar uppgötvanir norsku lögreglunnar eru nú taldar tryggja að hægt verði að bera kennsl á Therese finnist hún einhvern tímann. Ljósmynd/Sønstrød Foto

Inger-Lise Johannessen á langt í land með að jafna sig á þeirri skelfilegu lífsreynslu sem hún upplifði 3. júlí 1988, daginn sem níu ára gömul dóttir hennar, Therese Johannessen, hvarf sporlaust skammt frá heimili þeirra í Fjell í norska bænum Drammen, skammt frá Ósló, þegar hún ætlaði að skreppa út í sjoppu að kaupa sér sælgæti. Síðan hefur ekkert til Therese spurst.

Nú hefur kaldmáladeild norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos, Cold case-gruppa, eins og hún kallast, hins vegar fengið staðfest að erfðaefni, sem nýlega fannst á koddaveri og strokleðri, hafi reynst eiga uppruna sinn hjá horfnu dótturinni eftir rúmlega þrjá áratugi. Verkefni deildarinnar snúast um að finna nýjar vísbendingar í málum sem talið er vonlítið að nokkurn tímann verði upplýst.

„Við fundum erfðaefni á koddaveri og strokleðri sem nægði til þess að bera kennsl á manneskjuna,“ segir Kjell Johan Abrahamsen, saksóknari suðausturumdæmis norsku lögreglunnar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Vita þá að það er hún

Fundurinn táknar ekki að vitað sé hver örlög Therese urðu eða hvað varð um hana, en gefur aðstandendum þá von að hægt verði að bera kennsl á hana finnist líkamsleifar hennar einhvern tímann.

„Eftir öll þessi ár fann kaldmáladeildin DNA úr Therese. Það er ótrúlegt. Þeir lögðu sig alla fram við að grafa þetta upp,“ segir móðir stúlkunnar. „Þetta gleður mig mjög. Finnist hún einhvern tímann, lífs eða liðin, vitum við að minnsta kosti að það er hún,“ segir móðirin enn fremur í viðtali í heimildaþáttaröð NRK, „Therese – stúlkan sem hvarf“, Therese – jenta som forsvant, eins og þáttaröðin heitir á norsku.

„Þetta breytir auðvitað einhverju og gefur okkur eitthvað að leita að, en við erum ekkert sérstaklega bjartsýn á að þetta leysi málið,“ segir Abrahamsen og bendir á að lögreglan hafi allar götur síðan 1988 haft aðgang að erfðaefni móðurinnar til samanburðar komi til þess.

Tannlæknaskýrslur nýtast best

Jonas Fabritius Christoffersen, upplýsingafulltrúi norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos, segir NRK að erfðaefni sé einn þriggja þátta sem einkum megi nota til að bera kennsl á fólk, hinir tveir séu fingraför og tannlæknaskýrslur.

„Oftast nýtast tannlæknaskýrslurnar okkur til að bera kennsl á líkamsleifar,“ segir Christoffersen og vísar til mannshvarfsmáls frá 1955 þar sem tannlæknaskýrslur komu við sögu ásamt öðrum gögnum og mbl.is fjallaði um fyrir réttu ári, í nóvember 2019.

Eirik Natås Hanssen, réttarmeinafræðingur við Háskólasjúkrahúsið í Ósló, segir stórstígar tækniframfarir hafa átt sér stað síðan á níunda áratugnum.

„Núna getum við greint erfðaefni nánast samdægurs. Í gamla daga þurftum við helst að fá heilan blóðpoll til að útbúa greiningu, núna nægja okkur tíu frumur sem er gríðarleg framför,“ segir Hanssen og bætir því við að því lengri tími sem líði, þeim mun örðugri verði rannsóknin.

„Lífræn efni brotna niður og DNA hrörnar. Þetta er þó breytilegt eftir umhverfinu. Það sem liggur í þurru umhverfi getur varðveist mánuðum og jafnvel árum saman,“ segir réttarmeinafræðingurinn og nefnir sem dæmi að háskólasjúkrahúsið hafi fengið fjölda muna í eigu horfnu stúlkunnar til greiningar.

Leyfir sér að vona

„Við tókum prufur af þessu öllu. Sumt gaf enga svörun, annað gaf blandaða svörun. Af nokkrum munum gátum við gert okkur mynd sem gaf okkur svo greinargóða byggingu að þú fyndir aldrei aðra manneskju nokkurs staðar í heiminum sem gæfi sömu svörun.“

Þær uppgötvanir eru þó aðeins önnur hliðin og nýtast fyrst þegar og ef líkamsleifar finnast sem hægt er að bera saman við erfðaefnið sem norska lögreglan hefur aflað.

„Ég ætla samt að leyfa mér að vona að hún finnist einhvern tímann,“ segir Inger-Lise Johannessen, móðir Therese, sem vonast til að þáttaröðin um hvarf dóttur hennar í júlí 1988 kalli fram haldbærar vísbendingar um hvað gerðist daginn sem Therese ætlaði að skreppa eftir sælgæti og kom aldrei fram síðan.

NRK

VG

Medier24

Dagbladet

mbl.is