Vara við verulegri truflun á landamærum

Vörubílar á leið í land í Dover á Englandi.
Vörubílar á leið í land í Dover á Englandi. AFP

Viðskipti milli Bretlands og Evrópusambandsins verða fyrir „verulegri truflun“ þegar aðlögunartíma Breta vegna útgöngu úr Evrópusambandinu lýkur um áramót. Þetta segir í skýrslu ríkisendurskoðunar Bretlands (National Audit Office). BBC greinir frá.

Segir í skýrslunni að „mjög ólíklegt“ sé að fyrirtæki séu tilbúin fyrir eftirlit sem Evrópusambandið muni koma upp á landamærum sínum. Þá er varað við „takmörkuðum“ tíma fyrir Breta til að koma upp nýju upplýsingatæknikerfi í höfnum sínum.

Bretar yfirgáfu Evrópusambandið að nafninu til í janúar á þessu ári, en eru hluti af innri markaðnum og hllíta reglum sambandsins til ársloka. Unnið er að því að búa landamæri Breta undir breytinguna, en varað er við því að ekki sé víst að ný kerfi verði tilbúin í tæka tíð.

Samkvæmt útgöngusamningi Breta og Evrópusambandsins eiga stjórnvöld á Norður-Írlandi að framfylgja tollareglum Evrópusambandsins í höfnum sínum, og þarf því tollskýrslu fyrir vörur sem koma frá Bretlandi.

Breska ríkisendurskoðunin segir að Matvælastofnun Norður-Írlands, sem ber ábyrgð á að fylgjast með innflutningi matvæla og lifandi dýra, hafi verið alvarlega heft vegna áframhaldandi viðræðna milli Breta og Evrópusambandsins.

Segir ennfremur að Matvælastofnunina skorti nánari útskýringar á því hvaða tollskoðun þurfi að fara fram. Meti ríkisendurskoðun það svo að ekki verði hægt að ljúka vinnu á landamærum fyrir áramótin örlagaríku.

mbl.is