Ekki enn lagaheimild fyrir minkadrápi

Mette Frederiksen, forætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í gær.
Mette Frederiksen, forætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í gær. AFP

Danska ríkisstjórnin hafði ekki lagaheimild til að fyrirskipa að öllum minkum í landinu skyldi slátrað. Stjórnvöld fyrirskipuðu slíkt í síðustu viku eftir að tólf manns greindust smitaðir af stökkbreyttu afbrigði kórónuveirunnar sem rakið er til minkabús.

Gildandi lög heimila aðeins að minkum sé slátrað innan 7,8 kílómetra radíuss frá þeim stað sem sjúkdómur greinist en engu að síður voru boð látin út ganga á miðvikudag í síðustu viku að allir minkar í landinu skyldu aflífaðir. Mogens Jensen landbúnaðarráðherra Danmerkur hefur beðist afsökunar á fljótfærninni. Ber hann fyrir sig að hafa ekki vitað að lagaheimild skorti.

„Við höfum gert mistök. Það er ekki lagaheimild til að krefja minkabændur um að skera niður minka utan tiltekinna svæða,“ segir Jensen í samtali við sjónvarpsstöðina TV 2 í morgun.

Kvað þar við nýjan tón, því í skriflegu svari frá ráðuneytinu til TV 2 á sunnudag sagði að ráðuneytið hefði „metið það svo að ekki væri hægt að bíða eftir lagaheimild áður en fyrirmælin yrðu gefin út“.

Málið þykir allt hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórnina en á blaðamannafundi í morgun vék Mette Frederiksen forsætisráðherra sér undan ábyrgð og sagði hana liggja hjá landbúnaðarráðherranum. 

Danskir minkar bíða örlaga sinna.
Danskir minkar bíða örlaga sinna. AFP

Minkahald verði ólöglegt til 2022

Ríkisstjórnin kynnti í dag frumvarp sem ætlað er að veita leyfi fyrir gjörningnum. Samkvæmt því verður minkahald ólöglegt í Danmörku út árið 2021, með undantekningu fyrir dýragarða, fjölleikahus og minka í einkaeigu svo fremi sem ekki séu haldnir fleiri en fimm minkar.

Vonir ríkisstjórnarinnar stóðu til að frumvarpið fengi flýtimeðferð í þinginu og gæti orðið að lögum strax i dag. Til þess þarf stuðning 75% þingheims. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar lagst gegn frumvarpinu og nýtur það því ekki nægilegs stuðnings til flýtimeðferðar. Þess í stað verður að ræða frumvarpið fyrir við þrjár umræður í þinginu líkt og önnur frumvörp og gæti tekið daga eða jafnvel vikur áður en það verður að lögum.

Ógn við bóluefni

Hið nýja afbrigði veirunnar, sem rakið er til minkanna, er ekki talið hættulegra mönnum en sú tegund nýju kórónuveirunnar sem við þekkjum fyrir. Danska rannsóknarstofnunin (Statens Serum Institut) hefur þó varað við að næði afbrigðið að dreifast um Danmörku eða út fyrir landsteinana gæti það haft „alvarlegar afleiðingar“ fyrir þær tegundir bóluefna gegn Covid-19 sem þegar eru í þróun.

Þau yrðu síður áhrifarík ef aðrar tegundir veirunnar ná fótfestu. Í versta falli gæti Danmörk orðið að miðpunkti nýs faraldurs á sama hátt og Wuhan í Kína varð í upphafi árs. „Besta leiðin til að stöðva þetta afbrigði er að koma alfarið í veg fyrir útbreiðslu smitanna,“ segir í mati rannsóknarstofnunarinnar, sem ríkisstjórnin byggði ákvörðun sína á.

Af þeim sökum hefur verið gripið til mjög harðra aðgerða í sjö sveitarfélögum á Norður-Jótlandi.

Nemendur í 5-8. bekk í grunnskóla, framhaldsskólum og háskólum, með lögheimili í sveitarfélögunum, mega ekki mæta í skólann. Öllum veitingastöðum og kaffihúsum hefur verið lokað, almenningssamgöngur ganga ekki. Opinberum byggingum á borð við bókasöfn og listasöfn hefur verið lokað og fólki er ráðið frá því að ferðast til og frá svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert