Heyrðu þrusk inni í skálanum

Nóra Quoirin fannst látin inni í regnskóginum.
Nóra Quoirin fannst látin inni í regnskóginum. AFP

Foreldrar fimmtán ára gamallar stúlku, Nóra Quoirin, sem hvarf 4. ágúst 2019 og fannst látin níu dögum síðar, segjast hafa heyrt hávaða inni í skálanum sem fjölskyldan dvaldi í áður en hún hvarf í Malasíu. Yfirvöld þar í landi segja að ekkert saknæmt hafi átt sér stað.

Nóra Quoirin, sem var með þroskahömlun, fannst látin í regnskógi skammt frá skála fjölskyldunnar í um 65 km fjarlægð frá Kuala Lumpur. Hún var nakin þegar hún fannst en dagana á undan hafði fjölmennir leitarflokkar leitað hennar í skóginum. 

Sebastien Quoirin bar vitni fyrir rétti í dag í tengslum við rannsókn á hvarfi Nóru. Hann sagðist hafa heyrt kæft hljóð innan úr skálanum seint um kvöldið daginn sem fjölskyldan, sem býr í London, kom þangað.  

Lögreglan sem rannsaka málið telja að andlát stúlkunnar og hvarf hennar eigi sér eðlilegar skýringar en foreldrar hennar telja að hún hafi verið numin á brott. Nóra hefði aldrei látið sig hverfa. 

Quoirin segir að hann geti ekki lýst hljóðinu nákvæmlega en það hafi verið mjög nálægt. Hann bar vitni í gegnum myndsendi þar sem þau geta ekki verið viðstödd réttarhöldin vegna Covid-19. Hann segist samt ekki hafa rannsakað uppruna hljóðsins enda örmagna af þreytu þegar hann heyrði það. Móðir Nóru, Meabh Quoirin, var á sama máli er hún bar vitni í gær og sagðist hafa heyrt raddir inni í húsinu. 

Frétt BBC

Þau uppgötvuðu hvarf dótturinnar morguninn eftir og tóku hundruð leitarmanna þátt í leitinni næstu daga. Gluggaloka á skálanum var brotin en faðir Nóru segist ekki geta ímyndað sér að hún hefði getað klifrað hjálparlaust út um gluggann enda átti hún bæði erfitt með hreyfingu og jafnvægi. Nóra var með heilkenni sem nefnist holoprosencephaly. Í grein sem birtist í Læknablaðinu í fyrra kemur fram að samhvelfun eða holoprosencephaly er afleiðing röskunar á þroskanum snemma á fósturskeiði. Röskun sem getur valdið meðfæddum missmíðum í miðtaugakerfi eins og klofnum hrygg (spina bifida), vatnshöfði (hydrocephalus), samhvelun (holoprosencephaly), heilahaulum (encephaloceles) og heilaleysi (anencephaly).

Faðir Nóru segir að hana skorti sjálfsbjargarviðleitni og það sé algjörlega óskiljanlegt hvernig henni hafi tekist að komast út úr skálanum og haft kjark í að fara þaðan inn í skóginn af sjálfsdáðum. 

Að hans sögn voru engir áverkar á fótum hennar þegar líkið fannst sem er mjög óeðlilegt ef hún á að hafa ráfað um regnskóginn dögum saman. Hann telur að henni hafi verið rænt og líkinu síðan komið fyrir. 

Foreldrarnir hafa gagnrýnt yfirvöld í Malasíu fyrir seinagang eftir að þau tilkynntu hvarf Nóru og rannsóknina í kjölfarið. Að sögn lögreglu bendir ekkert til þess að henni hafi verið rænt. Krufning leiddi í ljós að hún hafi látist af innvortis blæðingum og hún hafi soltið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert