Segja afsögn þingmannanna farsa

Fimmtán lýðræðissinnaðir stjórnarandstæðingar á þingi Hong Kong hafa sagt starfi …
Fimmtán lýðræðissinnaðir stjórnarandstæðingar á þingi Hong Kong hafa sagt starfi sínu lausu. AFP

Stjórnvöld í Kína hafa fordæmt afsögn þingmanna stjórnarandstöðunnar í Hong Kong og segja um að ræða farsa og ögrun gegn kínverskum stjórnvöldum.

Ráðamenn í Kína samþykktu í gær ályktun sem heimilar stjórnvöldum í Peking að dæma stjórnmálamenn sem taldir eru ógna þjóðaröryggi vanhæfa, og í kjölfarið voru fjórir lýðræðissinnaðir stjórnarandstæðingar á þingi Hong Kong leystir frá störfum.

Fimmtán lýðræðissinnaðir þingmenn sýndu samstöðu sína með því að segja af sér þingstörfum og eru því engir lýðræðissinnaðir þingmenn eftir á þingi Hong Kong.

Stjórnarandstæðingar segja þetta nýjasta útspil stjórnvalda í Peking brjóta enn frekar á sjálfsstjórn Hong Kong og sé aðför að tjáningarfrelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert