Þrjú dauðsföll af völdum Ksalol-taflna

Ksalol-töflur, sem líklega er smyglað til Noregs frá Póllandi og …
Ksalol-töflur, sem líklega er smyglað til Noregs frá Póllandi og innihalda virka benzódíazepín-efnið alprazolam, en grunur leikur á að þær innihaldi einnig ópíóíð-verkjalyfið fentanýl. Þrír menn á þrítugsaldri hafa látist í Tromsø í kjölfar neyslu taflnanna síðustu vikuna. Ljósmynd/Norska lögreglan

Þrír menn á þrítugsaldri í Tromsø í Noregi hafa látist síðustu vikuna eftir að hafa tekið inn Ksalol, töflur sem innihalda virka benzódíazepín-efnið alprazolam sem er kvíðastillandi og róandi og finnst meðal annars í sterkum róandi lyfjum á borð við Xanax og Xanor.

Greint var frá því í fyrradag að lögreglan í Harstad, skammt sunnan við Tromsø, hefði lagt hald á 1.700 Ksalol-töflur og handtekið fimm manns í tengslum við málið, en töflurnar ganga nú kaupum og sölum í byggðarlaginu þar sem að sögn lögreglu hefur verið mikill hörgull á hassi undanfarið og því talið að Ksalol sé ætlað að hlaupa þar í skarðið.

Gruna að töflurnar innihaldi fentanýl

„Okkur er kunnugt um að töflur af þessari tegund eru í umferð í mörgum norskum bæjum og ég hugsa að þær séu á ferð innan allra lögregluumdæma,“ segir Yngve Myrvoll, yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar í Tromsø, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Talið er að Ksalol-töflunum sé smyglað til Noregs frá Póllandi og grunar lögreglu að í þeim finnist hugsanlega fentanýl, ópíóíð-verkjalyf sem er margfalt sterkara en morfín og eftirsótt á fíkniefnamarkaði. Hafa Ksalol-töflur meðal annars fundist í Salten, Lofoten og Vesterålen sem allt eru byggðarlög í Norður-Noregi.

„Þessar töflur eru lífshættulegar. Við höfum ástæðu til að ætla að þær séu útbreiddar í Nordland og vörum fólk sterklega við að neyta þeirra,“ segir Finn Erik Rødsand hjá lögreglunni í Nordland-umdæminu.

Snapchat notað til dreifingar

Myrvoll í Tromsø kveðst óttast að töflurnar innihaldi firnasterk efni sem geti samhliða neyslu áfengis og annarra fíkniefna haft banvæn áhrif. Bætir hann því við að innihaldi töflurnar fentanýl geti þær auðveldlega verið banvænar einar og sér.

„Við fylgjum nú eftir ábendingum og gerum það sem í okkar valdi stendur til að leggja hald á það sem er í umferð af þessu. Við eigum í samstarfi við fleiri lögregluumdæmi við að reyna að kortleggja dreifingarleiðirnar,“ segir hann og kveður enn fremur vitað að samfélagsmiðlar á borð við Snapchat komi þar við sögu.

„Maður veit ekkert hvað er í þessu. Skyndilega er það …
„Maður veit ekkert hvað er í þessu. Skyndilega er það fentanýl og svo er maður búinn að missa besta vin sinn,“ segir vinkona eins þeirra sem létust í Tromsø og hafði sjálf keypt sér Ksalol-töflur sem enn er ekki vitað fullkomlega hvað innihalda. Ljósmynd/Lögreglan í Troms

Kathrine Kristoffersen, yfirlæknir heilsugæslunnar í Tromsø, segir við TV2 að dauðsföll tengd fíkniefnum séu nú fleiri en vanalegt er og það sé áhyggjuefni.

„Við heyrum frá heilbrigðisstarfsfólki að nú sé „hassþurrkur“ og þá komi einhverjir sér í tæri við önnur efni. Efnin sem talið er að séu í þessum pillum [Ksalol] geta valdið öndunarstoppi svo þetta er mjög ískyggilegt,“ segir Kristoffersen.

„Svo er maður búinn að missa besta vin sinn“

NRK ræddi við vinkonu eins mannanna sem létust í Tromsø en sú hafði sjálf keypt Ksalol-pillur og bar því við að þær litu út fyrir að koma úr lyfjaverslun þótt líkurnar á að um einhvers konar austurevrópska bílskúrsframleiðslu sé að ræða séu að sögn lögreglu yfirgnæfandi.

„Ég vara fólk við að kaupa útlenskt dóp. Maður veit ekkert hvað er í þessu. Skyndilega er það fentanýl og svo er maður búinn að missa besta vin sinn,“ segir vinkonan við norska ríkisútvarpið.

Kristian Aagaard er sjálfboðaliði sem dreifir götublaðinu Virkelig í Tromsø. Hefur hann marga fjöruna sopið á kantsteinum lífsins og þekkir vel til veruleika fíkniefnaneytenda í Tromsø.

„Þetta er ungt fólk sem tilheyrir ekki fíklasamfélaginu [n. rusmiljøet] og heldur að pillur séu öruggar,“ segir Aagaard og á við ungu mennina sem létust síðustu daga. „Þeir fara undir ratsjána,“ bætir hann við og segir upplýsingagjöf lykilinn að því að fyrirbyggja dauðsföll af völdum fíkniefna.

„Heiðarlegar upplýsingar sem hægt er að treysta á og myndir af efnunum. Fólk áttar sig þá á því að háski er á ferð,“ segir Aagaard við NRK.

NRK

NRKII

TV2

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert