„Ég mun leita að þér í himnaríki“

Tracy og eiginmaður hennar Chad á 34 ára brúðkaupsafmæli sínu.
Tracy og eiginmaður hennar Chad á 34 ára brúðkaupsafmæli sínu. Ljósmynd/Lindsay Wootton

Lindsay Wootton, 34 ára íbúi Utah í Bandaríkjunum, missti bæði móður sína og afa af völdum kórónuveirunnar í október. Síðustu orð afa Lindsay til dóttur sinnar voru: „ég mun leita að þér í himnaríki.“

11. október síðastliðinn tilkynntu læknar Lindsay að móðir hennar Tracy Larsen, 56 ára, myndi tapa langri baráttu sinni við öndunarfærasjúkdóminn Covid-19. Sama dag fékk Lindsay síðan þær fréttir að áttræður afi hennar, Burt Porter, myndi einnig látast af völdum sjúkdómsins. 

„Síðustu samræður þeirra – dagurinn allur – var líklegast einn erfiðasti dagur ævi minnar,“ sagði Lindsay í samtali við CNN. „Við hringdum í afa minn og ég setti hann á hátalara svo hann gæti talað við mömmu. „Vinan, mér líður ekki svo vel,“ sagði hann og hún svaraði „pabbi, ekki mér heldur“. Hann sagði svo „Tracy, ég er að deyja“ og hún svaraði „pabbi, ég líka“, rifjar Lindsay upp. 

61 árs gamall faðir Lindsay, Chad Larsen, veiktist einnig af Covid-19 og var inniliggjandi á sjúkrahúsi með eiginkonu sinni í 46 daga. Hann er nú útskrifaður af sjúkrahúsi en syrgir bæði eiginkonu sína og tengdaföður. 

„Börnin mín fá ekki ömmu sína“

Saga fjölskyldunnar er ekki einsdæmi. Í 49 ríkjum Bandaríkjanna af 50 fer tilfellum veirunnar fjölgandi á ógnarhraða. 

Í Utah greindust 4.000 ný tilfelli veirunnar á fimmtudag sem er mesti fjöldi nýrra smita á einum degi frá því faraldurinn hófst. Ríkisstjóri Utah, repúblikaninn Gary Herbert, sagði á blaðamannafundi fyrir helgi að ríkið stæði nú á krossgötum. Yrði ekki gripið til aðgerða yrðu afleiðingarnar alvarlegar. 
Tracy og faðir hennar Burt.
Tracy og faðir hennar Burt. Ljósmynd/Lindsay Wootton

Lindsay, sem er tveggja barna móðir og starfar sem barþjónn í hlutastarfi, segir móður sína hafa verið bestu vinkonu sína. Hún segir að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til í Utah hafi verið of vægar og komið til sögunnar of seint. 

„Ég veit það eru hundruð þúsunda, ef ekki milljónir fjölskyldna sem eru að ganga í gegnum það sama og við og það brýtur í mér hjartað því þetta er versti sársauki sem ég hef upplifað,“ segir Lindsay. 

Lindsay segist þakklát fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga sem gerðu síðustu stundir fjölskyldunnar með Tracy bærilegar. Hjúkrunarfræðingarnir á gjörgæslunni hafi meðal annars hjálpað fjölskyldunni að halda upp á 34 ára brúðkaupsafmæli foreldra hennar þegar þau voru bæði inniliggjandi.

„Það er erfitt þegar fólk gerir lítið úr kórónuveirunni og segir hana ekki vera neitt meira en flensu, því fyrir suma er það ekki þannig. Fyrir suma kostar þetta lífið. Börnin mín fá ekki ömmu sína, mamma mín mun aldrei sjá barnabörnin sín gifta sig.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert