Segir Biden ekki hafa unnið kosningarnar

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti virtist fyrr í dag hafa viðurkennt sigur Joes Bidens í forsetakosningunum vestanhafs. Sagði hann Biden hafa sigrað í kosningunum á grundvelli kosningasvindls. 

„Hann vann af því að kosningunum var hagrætt. ENGIR SKOÐUNARAÐILAR leyfðir, atkvæði talin af fyrirtæki í eigu vinstri öfgasinna, Dominion, með slæmt orðspor og lélegan búnað sem stóðst ekki einu sinni kröfur í Texas (þar sem ég vann stórt!), falskir og hljóðir fréttamiðlar og meira!“ skrifaði forsetinn á Twitter í dag. 

Útskýrði mál sitt í öðru tísti

Ekkert lát virðist vera á ósönnuðum staðhæfingum Trumps um meint kosningasvindl en þetta virtist vera í fyrsta sinn sem Trump viðurkenndi berum orðum að Biden hefði haft betur í kosningunum sem fram fóru 3. nóvember, en sigur Bidens varð vís laugardaginn 7. nóvember eftir því sem helstu fjölmiðlar vestanhafs spáðu.

Í öðru tísti síðar útskýrði Trump hins vegar mál sitt. Sagðist hann gefa ekkert eftir. 

„Hann vann aðeins í augum FALSFRÉTTAMIÐLA. Ég gef EKKERT eftir! Það er löng leið framundan. Þetta voru HAGRÆDDAR KOSNINGAR,“ sagði forsetinn. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert