Danir herða öryggisgæslu í fangelsum

Lögreglu tókst að umkringja Peter Madsen stuttu eftir að honum …
Lögreglu tókst að umkringja Peter Madsen stuttu eftir að honum tókst að sleppa. Myndin er frá lögregluaðgerðum þann dag. Fyrir miðju sést Madsen og gervisprengjan sem hann notaði til að hóta sálfræðingi. AFP

Nick Hækkerup dómsmálaráðherra Danmerkur kynnti í dag hertar öryggisráðstafanir í Dönskum öryggisfangelsum. Kynningin kemur í kjölfar flóttatilraunar Peters Madsen úr öryggisfangelsinu í Herstedvester, skammt frá Kaupmannahöfn.

Aðgerðirnar fela í sér allsherjar úttekt á öryggismálum og ráðningu fjölda sérfræðinga til að fylgja bættu verklagi eftir.

Hótaði sálfræðingi með gervisprengju

Peter Madsen er 49 ára og situr nú af sér dóm fyrir að myrða blaðakonuna Kim Wall árið 2017 í kafbátnum sínum. Hún ætlaði að taka við hann viðtal en snéri aldrei aftur frá heimsókn sinni í kafbát Madsens. 

Þann 20. október tókst Madsen að brjótast út úr fangelsinu með því að hóta sálfræðingi sem starfaði í fangelsinu með sprengjubelti með gervisprengjum.

Þrátt fyrir að hafa einungis sloppið í nokkrar mínútur áður en hann var handsamaður aftur þótti tilvikið of alvarlegt til þess að bregðast ekki við. 

Frá því í október hafa Madsen og fimm aðrir fangar verið færðir í annað fangelsi. Ekki hefur verið upplýst um hvaða fangelsi er að ræða.

mbl.is