Drýgði hetjudáð en brenndist alvarlega

Rúmenskur læknir brenndist alvarlega við að bjarga sjúklingum með Covid-19 úr eldsvoða á sjúkrahúsi um helgina. Hann hefur verið fluttur á sjúkrahús í Belgíu.

Frétt BBC

Forsætisráðherra Rúmeníu, Ludovic Orban, sagði að dr. Catalin Denciu hefði unnið hetjudáð við að bjarga sjúklingum út úr brennandi sjúkrahúsinu í Piatra Nemat á laugardag. Orban segir að Denciu hafi sýnt einstakt hugrekki og fórnað sér í þeirri von að geta bjargað lífi annarra.

AFP

Tíu sjúklingar létust er eldurinn kom upp á gjörgæsludeild sjúkrahússins. Rannsókn er hafin á upptökum eldsins en hann breiddist fljótt út í nærliggjandi rými sjúkrahússins. 

Talið er að mögulega hafi kviknað í lækningatæki með þeim afleiðingum að eldurinn komst í súrefniskút á deildinni.

Að sögn borgaryfirvalda var gjörgæsludeildin flutt af þriðju hæð sjúkrahússins á hæðina fyrir neðan án þess að það hafi verið tilkynnt til yfirvalda. 

AFP

Sjö karlar og þrjár konur á aldrinum 67-86 ára létust í eldsvoðanum. Sex aðrir sjúklingar með Covid-19 slösuðust í eldsvoðanum og voru fluttir á sjúkrahús í borginni Iasi.

Denciu var fluttur á hersjúkrahús í Belgíu en áður hafði hann verið fluttur á sjúkrahús í höfuðborg Rúmeníu, Búkarest. Hann er með þriðja stigs brunasár á 40% líkamans. 

Forseti Rúmeníu, Klaus Iohannis, segir eldsvoðann skelfilegan atburð og mikilvægt sé að komast að því hvað gerðist. Með því verði vonandi hægt að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert