Næstum dauður eftir að hafa étið grímu

Ein af mörgum grímum sem eru geymdar í vöruhúsi í …
Ein af mörgum grímum sem eru geymdar í vöruhúsi í Frakklandi. AFP

Litlu munaði að hundur hefði drepist á Englandi eftir að hann reyndi að éta grímu.

Hundurinn Ralph, sem er eins árs og af tegundinni cocker spaniel, þurfti á bráðaaðgerð að halda á dýraspítalanum Huyton í borginni Liverpool til að fjarlægja grímuna úr líkama hans.

Eigandinn Juilie Veidman tók fyrst eftir því að eitthvað var að þegar hundurinn hennar hélt ekki niðri vatni og neitaði meira að segja að éta uppáhaldsmatinn sinn. „Við héldum aldrei að hann myndi éta grímu,“ sagði Veidman við BBC. „Við teljum að hann hafi stolið henni úr tösku dóttur minnar að nóttu til.“

Hún bætti við: „Hann hefur alltaf verið hrifinn af sokkum og stundum nærbuxum, þannig að við höfum alltaf haldið því frá honum.“

Dýralæknirinn Lizzie Whitton sagði að læknalið hennar hefði verið „í áfalli“ þegar það fann grímuna.

mbl.is