Fékk reisupassann eftir nasistatákn

Pete Evans er þekktur kokkur í heimalandinu en hann hefur …
Pete Evans er þekktur kokkur í heimalandinu en hann hefur gefið út bækur um mataræði. Af vef Pete Evans

Ástralski áhrifavaldurinn og samsæriskenningasmiðurinn Pete Evans hefur fengið reisupassann hjá nokkrum fyrirtækjum og bækur hans verið fjarlægðar úr hillum verslana eftir að hann birti nasistatákn á samfélagsmiðlum. 

Helstu smásölukeðjur Ástralíu hafa ákveðið að taka bækur hans og aðrar vörur honum tengdar úr hillum verslana  eftir að hann birti á Instagram færslu þar sem nasistatáknið svarta sólin eða Schwarze Sonne er birt. Táknið tengist þýska Nasistaflokknum og er notað af nýnasistum. 

Pete Evans hefur eytt færslunni af samfélagsmiðlum.
Pete Evans hefur eytt færslunni af samfélagsmiðlum. Skjáskot af færslu Pete Evans

Frétt Guardian

Frétt Perth Now

Frétt 7News

Útgefandinn Pan MacMillan er meðal þeirra sem hafa opinberlega gagnrýnt Evans og boðið verslunum að skila inn bókum sem Evans hefur ritað. Eins hefur eldhúsvöruframleiðandinn Baccarat tilkynnt að fyrirtækið muni hætta að framleiða og selja vörulínu með nafni Evans. Segir fyrirtækið að myndir og skoðanir sem Evans hafi sett fram séu óásættanlegar og afar móðgandi en Evans er þekktur matreiðslumaður í heimalandinu og víðar.

Jafnframt hefur verið hætt við sýningu á raunveruleikaþáttaröð hans I'm a Celebrity... Get Me Out of Here sem sýna átti fljótlega í sjónvarpi.

Evans hefur eytt myndinni af samfélagsmiðlum, mynd af fiðrildalirfu með Make America Great Again-derhúfu að ræða við fiðrildi með tákn svörtu sólarinnar á vængnum. Síðar birti Evans myndskeið af sér þar sem hann strýkur hrossi og undir heyrist ómþýð tónlist. Þar segir Evans að ásakanir á hendur honum séu ósannar og ruslahaugur. Hann hafi þurft að leita á Google að því hvað nýnasismi þýddi. 

Frá því kórónuveirufaraldurinn braust út hefur Evans ítrekað notað samfélagsmiðla til að koma samsæriskenningum á framfæri varðandi faraldurinn. Hann er einnig þekktur fyrir að halda á lofti mataræði sem ekki er vísindalega sannað að sé fólki fyrir bestu, svo sem steinaldarfæði. Vegna þessa er hann oft kallaður Paleo Pete af gárungum en hann er þekktur matreiðslumeistari og áhrifavaldur á því sviði víða um heim.

mbl.is