Sádar fjárfesta í gervigreind

Ráðstefna G20 ríkjanna fer fram í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, um …
Ráðstefna G20 ríkjanna fer fram í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, um helgina. AFP

Sádi-Arabía hefur gefið það út að konungsríkið muni fjárfesta 20 milljörðum Bandaríkjadala (ríflega 270 milljörðum íslenskra króna) í verkefnum tengdum gervigreind til ársins 2030. Er þetta gert til þess að gera efnahag landsins, sem er sá stærsti meðal arabaríkja, fjölbreyttari og ekki eins háður olíuverði, sem sveiflast hefur til og frá vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við leitumst við að gera gervigreind að einni stoð undir breyttum efnahag með tilkomu sprotafyrirtækja og frumkvöðla. Og við munum horfa til gervigreindar sem uppsprettu sparnaðar og umframtekna,“ sagði Abdullah al-Ghamdi, forstöðumaður gagna- og gervigreindarstofnunar Sádi-Arabíu, sem sett var á laggirnar í fyrra, við leiðtoga G20 ríkjanna á fundi þeirra nýverið.

Al-Ghamdi sagði einnig að bæði innlendum og erlendum fjárfestum yrði boðið að fjárfesta í þeim 300 sprotafyrirtækjum sem ætlað er að gagnsetja fyrir árið 2030.

Glíma enn við ímyndarkrísu

Ráðstefna G20 ríkjanna á að halda nú um helgina í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu. Þar koma saman leiðtogar 20 ríkustu landa heims og ræða sín á milli, líklega verður kórónuveirufaraldurinn ofarlega á baugi að þessu sinni.

Konungsættin í Sádi-Arabíu hefur þó undanfarið glímt við ímyndarkrísu þar sem margir gagnrýna enn morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi í tyrkneska sendiráðinu árið 2018. Þá hafa ýmis mannréttindasamtök nýtt sér athyglina, sem fundi G20 ríkjanna er veitt, til þess að kalla eftir að mannréttindafrömuðir í landinu verði látnir lausir úr fangelsi.

Margir minnast enn Jamal Khashoggi, blaðamannsins sem myrtur var af …
Margir minnast enn Jamal Khashoggi, blaðamannsins sem myrtur var af sádískum yfirvöldum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert