Segir fæðingu tvíburanna kraftaverk

AFP

Perpetual Uke var komin 26 vikur á leið þegar tvíburarnir sem hún gekk með voru teknir með keisaraskurði. Uke var fárveik í öndunarvél vegna Covid-19 þegar þeir fæddust.

Uke, sem er sérfræðingur í gigtarlækningum, segir samkvæmt frétt í Guardian að fæðing tvíburanna sé kraftaverk.

Uke var lögð inn á Queen Elizabeth-sjúkrahúsið í Birmingham þegar hún veiktist af kórónuveirunni í apríl og þegar líðan hennar versnaði var hún sett í öndunarvél og haldið sofandi.

Læknar ákváðu að taka tvíburana með keisaraskurði því óttast var að Uke myndi ekki lifa af veikindin. Tvíburarnir áttu að fæðast um miðjan júlí en fæddust þess í stað í apríl, 14 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag.

En Uke vaknaði úr dáinu og þegar hún sá ekki lengur kúluna óttaðist hún það versta – að hafa misst börnin. „Ég sá ekki kúluna og ég hélt að börnin mín væru dáin,“ segir hún í viðtali við Metro. „Þetta er ekkert annað en kraftaverk. Að þetta fór svona.“

Uke segir að öllum heilsist vel en það eina sem hún muni er að hafa veikst alvarlega og verið flutt á sjúkrahús með sjúkrabíl. Síðan hafi hún verið svæfð og vaknað sem fjögurra barna móðir en þau hjónin eiga tvö eldri börn.

Hún segir að það hafi verið hræðilegt að vakna upp úr dáinu að nýju. Martraðir hafi sótt á hana. Hún hafi verið með ofskynjanir og ímyndað sér allt það versta.

Tvíburarnir, stúlkan Sochika Palmer og drengurinn Osinachi Pascal, voru aðeins 765 grömm (rúmar þrjár merkur) og 850 grömm við fæðingu. 16 dögum eftir fæðingu þeirra komst Uke til meðvitundar að nýju. 

mbl.is