25 ára fangelsi fyrir að myrða eiginkonu sína

Jonathann Daval var í dag dæmdur í 25 ára fangelsi …
Jonathann Daval var í dag dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að myrða eiginkonu sínu, Alexia Daval, fyrir þremur árum. AFP

Frakki var í dag dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir að drepa eiginkonu sína og kveikja í líkinu. 

Jonathann Daval, 36 ára, játaði að hafa barið eiginkonu sína til bana og kveikt í líkinu í skóglendi. Áður hafði hann tilkynnt að hennar væri saknað og játaði ekki á sig morðið fyrir nokkrum mánuðum síðar.

Skömmu áður en dómurinn var kveðinn upp leit hann á tengdaforeldra sína og baðst afsökunar.

Brunnar líkamsleifar Alexia Daval fundust í skóglendi skammt frá bænum Gray-la-Ville í Austur-Frakklandi í október 2017. Daval hafði sagt er hann tilkynnti hvarf eiginkonu sinnar að hún hafi farið út að hlaupa og aldrei snúið aftur. 

Eftir að dómurinn var kveðinn upp sagði verjandi Daval að niðurstöðunni yrði áfrýjað en saksóknari hafði farið fram á lífstíðarfangelsi yfir morðingjanum. Daval skipulagði á sínum tíma ýmiskonar minningarstundir um eiginkonu sína og tók þátt í leitinni. Það var ekki fyrr en löngu eftir morðið að hann viðurkenndi að hafa drepið hana. Að um slys hafi verið að ræða.

Daval breytti frásögn sinni ítrekað og einu sinni dró hann játningu til baka og sakaði mág sinn um að hafa drepið systur sína. Loksins í júní í fyrra játaði hann að nýju.  

Morðið vakti athygli á stöðu kvenna og ofbeldi gagnvart þeim en á sama tíma var herferðin #MeToo í algleymi. 

Á mánudag greindu frönsk yfirvöld frá því að 125.840 konur hafi verið þolendur heimilisofbeldis í landinu í fyrra. 146 konur voru myrtar af mökum sínum eða fyrrverandi mökum í Frakklandi í fyrra. Er það fjölgun á milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert