Bjargar Covid-19 lífi hennar?

AFP

Lisa Montgomery, sem kyrkti þungaða konu, risti hana á kvið og tók úr henni ófætt barnið með eldhúshníf, verður tekin af lífi í næsta mánuði. Hún verður fyrsta konan sem tekin er af lífi af bandaríska alríkinu í 67 ár. Bobbie Jo Stinnett var 23 ára gömul er Montgomery drap hana í desember 2004 en þær þekktust ekki neitt. Yfir eitt þúsund lögmenn hafa biðlað til alríkisins um að þyrma lífi Montgomery þar sem hún er mjög veik á geði eftir hrottalegt ofbeldi í æsku sem og höfuðáverka sem hún hlaut sem barn.

Joe Biden tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar og hann hefur lýst því yfir að hann vilji stöðva aftökur á vegum alríkisins. Spurningin er núna hvort það sé of seint fyrir  Montgomery. Að vísu hefur aftökunni verið frestað til gamlársdags hið minnsta vegna þess að verjendur hennar eru smitaðir af Covid-19.

Alríkisdómari ákvað því á fimmtudag að fresta aftökunni. Verjendurnir, sem eru skipaðir af hinu opinbera, eru alvarlega veikir af kórónuveirunni samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla. 

Til stóð að taka Montgomery af lífi með banvænni sprautu í alríkisfangelsinu í Terre Haute, Indiana. Sama fangelsi og Or­lando Hall var tekinn af lífi á fimmtudag.

Aftaka hennar var sett á dagskrá eftir að ríkisstjórn Donalds Trumps ákvað í sumar að framfylgja að nýju dauðadómum alríkisins eftir tæplega tveggja áratuga hlé.

Dómstóll hafnaði nýverið beiðni lögmanna Montgomery um að lífi hennar yrði þyrmt á grundvelli geðveiki þrátt fyrir að samkvæmt lögum verði þeir sem taka á af lífi að vera sakhæfir. Nokkuð sem flestir efast um að hún sé.

Sakhæfi og dauðarefsingar

Deilan um sakhæfi og dauðarefsingar nær yfir áratugi og er helsta umfjöllunarefni nýrrar heimildarmyndar HBO, Crazy, Not Insane, sem kom út á miðvikudag. Þar er bandaríska geðlækninum dr. Dorothy Otnow Lewis fylgt eftir en Lewis hefur sérhæft sig í sálarlífi raðmorðingja. Hún hefur tekið viðtöl við marga alræmda morðingja allt frá Ted Bundy til Marks Davids Chapmans. 

Hún á ekki til orð yfir ákvörðun yfirvalda um að taka Montgomery af lífi. „Þú þarft ekki að vera geðlæknir til þess að vita að þessi kona er andlega mjög, mjög veik,“ segir Lewis og vísar þar til verknaðar Montgomery. 

Þegar réttað var yfir Montgomery sat hún svipbrigðalaus og þegjandi er ákærurnar voru lesnar upp fyrir 16 árum en málið vakti gífurlega athygli víða um heim enda óhugnanlegt.

Lisa Montgomery.
Lisa Montgomery.

Montgomery var handtekin á heimili sínu í Melvern í Kansas innan við sólarhring eftir að móðir Bobbie Jo Stinnett hafði fundið hana látna á heimili sínu í bænum Skidmore í nágrannaríkinu Missouri. Hringdi hún strax á lögregluna og lýsti aðstæðum þannig að það „er eins og magi dóttur minnar hafi sprungið“. Sáu læknar strax að Stinnett hafði verið rist á kvið og átta mánaða óborið barn fjarlægt.

Við athugun á tölvusamskiptum Stinnett beindist grunurinn strax að Montgomery en hún hafði sýnt áhuga á að kaupa hund af Stinnett, sem var með hundarækt. Boðaði hún komu sína daginn sem Stinnett var myrt, 16. desember 2004.

Þegar lögreglumenn bar að garði í Melvern var Montgomery þegar búin að sýna nágrönnum sínum og öðrum bæjarbúum litlu stúlkuna, sem hún kallaði Abigail, fór meira að segja til prestsins með mann sinn, Kevin, þar sem hún lýsti því hvað fæðinguna hefði borið brátt að, einmitt þegar hún var stödd í borginni Topeka í Kansas. Að sögn yfirvalda hafði hún áður sagt manni sínum og fjölskyldu að hún væri ófrísk þótt hún bæri þungann vel.

Alríkisfangelsið Terre Haute.
Alríkisfangelsið Terre Haute. AFP

Næstum strax eftir handtöku lögreglunnar játaði Montgomery sök sína. Að hún hefði myrt Stinnett, tekið barnið úr kviði hennar og einnig að óléttan hefði verið uppspuni að því er fram kom í fréttum mbl.is og Morgunblaðsins frá þessum tíma.

Lewis segir í heimildarmyndinni að eftir að hafa tekið viðtöl við 22 raðmorðingja og rekið stofu fyrir unga brotamenn viti hún að raskanir sem rekja megi til ömurlegrar barnæsku og taugafræðilegra galla séu á bak við ofbeldi og morð. Miklu frekar en að um meðfædda illsku sé að ræða. 

Ofbeldið framið af fjölskyldumeðlimum

Verjendur Montgomery hafa bent á atriði sem þessi en hún var beitt hrottalegu kynferðislegu ofbeldi í æsku sem og öðru ofbeldi ásamt því að höfuðáverki olli framheilaskaða. Ein þeirra sem tala máli Lisu Montgomery er Sandra L. Babcock, lagaprófessor við Cornell-háskóla. Hún segir að það séu óyggjandi sannanir fyrir því ofbeldi sem Lisa varð fyrir og að sýna eigi miskunn og breyta refsingunni í lífstíðardóm. Montgomery sé þolandi sifjaspella, henni hafi verið nauðgað af hópi karla og hún seld í kynlífsánauð sem barn. Ekki bara af stjúpa sínum heldur einnig móður. 

AFP

Rannsókn hefur leitt í ljós að Montgomery er með alvarlegan framheilaskaða en flest brotin sem framin voru gegn henni hafa verið framin af fólki í fjölskyldu hennar. Áralöng vanræksla, andleg, líkamleg og kynferðisleg misnotkun, að því er fram kemur í frétt AFP-fréttastofunnar. 

Hún hefur setið í fangelsi frá því hún var handtekin fyrir morðið og dauðadómurinn var kveðinn upp árið 2007. 

Í grein sem birtist í Huffington Post nýverið kom fram að Montgomery hefði búið við einstaklega ömurlegar aðstæður. Faðir hennar var áfengissjúklingur og móðir hennar einnig. Móðir hennar drakk mikið á meðgöngunni og beitti dóttur sína líkamlegu ofbeldi og hálfsystur  Montgomery var nauðgað fyrir framan hana þegar hún var smábarn. Ættingjar minnast þess að fyrsta heila setningin sem Lisa sagði sem barn var: „Ekki rassskella mig.“ Þegar hún var á leikskólaaldri gekk móðir hennar í hjónaband með Jack Kleiner og versnaði ástandið á heimilinu til muna við það enda barði hann konu sína og börnin reglulega.

Seldi vinum aðgang að barninu

Hann afklæddi dætur sínar og Lisu áður en hann barði þær. Kleiner nauðgaði Lisu oft þegar hún var barn og seldi vinum sínum aðgang að barninu gegn því að þeir sinntu viðhaldi hússins fyrir hann. Frændi Lisu segir að hún hafi lýst því fyrir honum hvernig henni var nauðgað í endaþarm, munn og leggöng klukkutímum saman af hópi karla. Eins börðu þeir hana og slógu ef þeir töldu hana ekki hegða sér eins og þeir óskuðu. Þegar þeir voru búnir að ljúka sér af pissuðu þeir yfir hana eins og hún væri rusl fyrir framan fætur þeirra. 

AFP

Þegar Lisa Montgomery var 15 ára skildi móðir hennar við Kleiner. Þrátt fyrir að hafa horft á Kleiner nauðga dóttur hennar tilkynnti hún aldrei kynferðisbrotin gagnvart barninu, heldur fór móðir Lisu að selja dóttur sína eftir skilnaðinn. Bauð hún körlum upp á að nauðga barninu gegn greiðslu. Var henni ítrekað hópnauðgað í boði mömmu að því er fram kemur í umfjöllun Huffington Post. 

Montgomery giftist stjúpbróður sínum þegar hún var 18 ára og átti fjögur börn með honum á tæpum fimm árum. Þá var hún tekin úr sambandi gegn hennar vilja. Ættingjar hennar segja í viðtali við Huffington Post að geðheilsu hennar hafi hrakað mjög eftir aðgerðina. 

Margfaldur persónuleiki Bundys

Ted Bundy.
Ted Bundy. skjáskot/Netflix

Í myndinni Crazy, Not Insane er meðal annars fjallað um frægasta skjólstæðing Lewis, Ted Bundy, sem játaði að minnsta kosti 30 nauðganir og morð á áttunda áratug síðustu aldar. Bundy hélt því sjálfur fram að hann hefði átt fullkomlega eðlilega og hamingjuríka æsku. Lewis telur aftur á móti að Bundy hafi verið með margfaldan eða rofinn persónuleika. 

Með margföldum persónuleika er átt við það þegar ein og sama manneskjan kemur fram eins og um tvær eða fleiri persónur sé að ræða. Röskunin tengist ofbeldisfullum uppeldisaðferðum afa hans, Sams. 

Í myndinni sýnir hún meðal annars ástarbréf sem Bundy skrifaði undir „Sam“ en að hennar sögn taka þeir sem eru með margfaldan persónuleika upp persónuleika þess sem beitti þá ofbeldi. Um er að ræða sjálfsvörn segir hún. Bundy var dæmdur til dauða fyrir glæpi sína og tekinn af lífi árið 1989.

Kvikmyndaleikstjórinn Alex Gibney, sem gerði myndina, er margverðlaunaður fyrir heimildarmyndir sínar. Hann segir að Lewis sé ekki á þeirri skoðun að það eigi að sleppa þeim lausum heldur sé hún að benda á að horfa beri rétt á hlutina ætli menn að skilja hvað liggi að baki verknaðinum.

Gibney er talinn merkasti og um leið mikilvægasti leikstjóri heimildarmynda í Bandaríkjunum en meðal mynda hans eru: 

  • The Inventor: Out for Blood in Silicon Valley
  • Going Clear: Scientology and the Prison of Belief
  • We Steal Secrets: The Story of Wikileaks
  • Mea Maxima Culpa: Silence in the House of God
  • Enron: The Smartest Guys in the Room
  • Client 9: The Rise and Fall of Eliot Spitzer
  • Casino Jack and the United States of Money and Taxi to the Dark Side
  • Citizen K.

Byggt á:

Deathpenaltyinfo

Time

Guardian

UPI

mbl.is