Braust inn á fjarfund ESB um öryggismál

Daniel Verlaan heilsar varnarmálaráðherrum Evrópusambandsríkja.
Daniel Verlaan heilsar varnarmálaráðherrum Evrópusambandsríkja. Skjáskot/RTL Nieuws

Hollenskum blaðamanni tókst að komast inn á fjarfund varnarmálaráðherra Evrópusambandsríkja.

Blaðamaðurinn, Daniel Verlaan frá RTL Nieuws, náði að skrá sig inn á myndbandsspjallið eftir að varnarmálaráðherra Hollands hafði deilt skjáskoti af fundinum á Twitter. 

Josep Borell, utanríkisstjóri Evrópusambandsins, virtist sjá íroníuna í því að uppátækið hefði heppnast. „Þú veist að þú ert að troða þér inn á öryggismálafund?“ sagði Borell og hló.

„Já, ég veit. Ég biðst afsökunar. Ég er blaðamaður frá Hollandi. Afsakið að ég hafi truflað fundinn,“ sagði Verlaan og uppskar hlátur frá fundargestum.

„Þú veist að þetta er glæpur. Þú ættir að skrá þig út í flýti áður en lögreglan kemur,“ svaraði Borrell kíminn.

„Heimskuleg mistök“

Blaðamanninum tókst að komast inn á fundinn þar sem Ank Bijleveld, varnarmálaráðherra Hollands, hafði deilt mynd af innskráningarkóða fundarins og hluta af PIN-númeri hans á Twitter.

„Eftir örfáar tilraunir tókst RTL Nieuws að giska á PIN-númerið á leynifundinum því fimm af sex stöfum PIN-númersins voru þegar sýnilegir á myndinni,“ segir í frétt miðilsins.

Þótt atvikið sé spaugilegt vekur það upp áleitnar spurninar um öryggismál á mikilvægum fundum sambandsins. Fundinum var slitið í kjölfar innbrotsins, en talsmaður utanríkisráðs Evrópusambandsins sagði í samtali við RTL: „Svona innbrot er ólöglegt og verður tilkynnt til yfirvalda.“

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Hollands segir að það hafi verið „heimskuleg mistök“ að deila myndinni á Twitter. „Þetta sýnir að maður þarf að fara varlega þegar maður sendir myndir af fundum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert