Greiddu 272 milljóna tryggingu fyrir morðingjann

Frá göngu til stuðnings Donald Trump í september. Free Kyle …
Frá göngu til stuðnings Donald Trump í september. Free Kyle er vísun í Kyle Rittenhouse. AFP

Kyle Rittenhouse  er laus úr fangelsi og er það leikaranum Ricky Schroder og forstjóra My Pillow, Mike Lindell, að þakka segir Lin Wood í færslu á Twitter. Rittenhouse er 17 ára öfgasinni sem skaut tvær manneskjur til bana í mótmælum Black Lives Matter í Wisconsin fyrr á þessu ári.

Wood er einn af lögmönnum Rittenhouse en morðinginn var látinn laus gegn greiðslu á tveggja milljóna bandaríkjadala tryggingu í gær. Það svarar til 272 milljóna króna. Mennirnir sem hann þakkar fyrir að hafa greitt fyrir lausn Rittenhouse eru báðir stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Trump hefur sjálfur lýst yfir hluttekningu með morðingjanum. 

Myndskeið var birt á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum í ágúst þar sem Rittenhouse skaut tvo mótmælendur til bana, Anthony Huber og Joseph Rosenbaum í Kenosha, Wisconsin. Hann særði síðan þriðja manninn alvarlega.

Rittenhouse er mikill aðdáandi vopnaðra öfgahópa í Bandaríkjunum. Hann fór, samkvæmt  fréttum bandarískra miðla, til borgarinnar til að verja borgina fyrir óeirðarseggjum sem tóku þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi. 

Mótmælin brutust út eftir að svartur maður, Jacob Blake, var skotinn ítrekað í bakið af hvítri lögreglu af stuttu færi fyrir framan þrjá unga syni sína. Blake lifði af en talið er ósennilegt að hann geti gengið framar. 

mbl.is