Strand með 400 manns um borð

Viking Grace á strandstaðnum með 331 farþega og 98 manna …
Viking Grace á strandstaðnum með 331 farþega og 98 manna áhöfn um borð. Farþegarnir bíða nú í ráðstefnusal á níunda þilfari og komast hvorki lönd né strönd, ekki er vitað hve lengi. Ljósmynd/Vegfarandi

Viking Grace, farþegaferja finnsku ferjuútgerðarinnar Viking Line, sigldi í strand með rúmlega 300 farþega og 98 manna áhöfn við Mariehamn á Álandseyjum klukkan 13:15 í dag að skandinavískum tíma, 12:15 á Íslandi.

Veðurskilyrði á svæðinu eru slæm, hvasst og sjór þungur. „Grace er stórt skip og þolir svona veður,“ segir Eleonora Hansi, upplýsingafulltrúi Viking Line, í samtali við sænska Aftonbladet.

Grace er örskammt frá landi og var komin inn í innsiglingu hafnarinnar í Mariehamn þegar hún sigldi á grunn og lýsa farþegar, sem sænskir fjölmiðlar hafa rætt við, miklu höggi við strandið. „Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt,“ sagði einn þeirra, „þeir [áhöfnin] sögðu í kallkerfið að við værum strand og allir um borð skyldu safnast saman í ráðstefnusalnum á níunda þilfari,“ sagði farþeginn enn fremur.

Enginn í hættu

Að sögn upplýsingafulltrúa Viking Line kom ekki leki að ferjunni en hún situr föst á strandstaðnum og vita farþegarnir 300 nú ekkert um hvenær þeir komast leiðar sinnar en Viking Grace var á leið frá Stokkhólmi í Svíþjóð til Turku í Finnlandi, skammt frá höfuðborginni Helsinki. Ferjur Viking Line milli Finnlands og Svíþjóðar gera jafnan stutt stopp í Mariehamn á leið sinni, þar sem farþegar og vörur fara í land og koma um borð.

Viking Grace á siglingu. Aftakaveður er við Álandseyjar og hefur …
Viking Grace á siglingu. Aftakaveður er við Álandseyjar og hefur Viking Line aflýst siglingu ferjunnar Rosella af þeim sökum. Ljósmynd/Viking Line

Að sögn farþegans, sem ræddi við Aftonbladet, sitja farþegarnir nú og bíða þess sem verða vill en strandstaðurinn er ekki nema um 500 metra frá höfninni. „Ætli þeir sér að fara að rannsaka tildrög óhappsins gætum við þurft að sitja hér lengi. Ég vona að þeir geti að minnsta kosti sleppt okkur frá borði áður en þeir taka til við það,“ sagði hann.

Hansi upplýsingafulltrúi segir engan um borð í hættu og henni sé ekki kunnugt um hvenær farið verði í að koma farþegunum frá borði, verði það gert, en 331 farþegi er um borð auk áhafnarinnar. Veður séu hins vegar válynd og hafi Viking Line meðal annars ákveðið að hætta við siglingu ferjunnar Rosella vegna þess.

Annað strand Viking Line á skömmum tíma

Ökumaður bifreiðar í landi, Anders Holmberg, segir við Aftonbladet að svo hvasst sé á Álandseyjum að hann hafi næstum verið fokinn um koll þegar hann var á gangi skömmu áður og nú vaggi bifreið hans á fjöðrunum í veðurhamnum.

„Þar sem strandið varð í Mariehamn eru björgunarstörf í verkahring kollega okkar í Finnlandi, en við komum auðvitað til aðstoðar óski Finnar þess,“ segir Carl-Johan Linde, upplýsingafulltrúi sænsku siglingastofnunarinnar Sjöfartsverket, við Aftonbladet og bætir því við að enn hafi ekkert slíkt erindi borist.

Hann segir óvenjulegt að stærri farþegaferjurnar lendi í hremmingum á borð við þessar. Er þó ekki lengra síðan en í september að önnur ferja Viking Line, Amorella, strandaði í skerjagarðinum við Álandseyjar.

Aftonbladet

SVT

Dagens Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert