Undirritar reglugerð um lækkun lyfjaverðs

Donald Trump á blaðamannafundi í gær, þar sem reglugerðin var …
Donald Trump á blaðamannafundi í gær, þar sem reglugerðin var kynnt. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti í gær reglugerð sem ætlað er að lækka verð tiltekinna lyfja innan Medicare, opinbera heilbrigðiskerfinu. Er þetta metnaðarfyllsta reglugerðin af nokkrum sem settar hafa verið á síðustu mánuðum forsetans í embætti, en í frétt New York Times segir að líklegt sé að lyfjafyrirtæki muni leita réttar síns vegna málsins.

Trump hefur um árabil viðrað hugmynd um að skylda lyfjafyrirtæki til að selja 50 dýr lyf í Bandaríkjunum fyrir lægsta verð sem þau bjóða meðal 50 þróaðra ríkja. Með þessu vill forsetinn ná niður lyfjaverði í landinu enda er lyfjaverð þar umtalsvert hærra en í öðrum þróuðum ríkjum.

Á blaðamannafundi sagði Trump að reglugerðin myndi „umbylta leiðinni sem Bandaríkin borga fyrir lyf“. Sakaði hann önnur ríki í leiðinni um að hafa lifað á því að Bandaríkjamenn hefðu borgað um of fyrir lyfin. 

Forsetinn hefur verið á skjön við sinn eigin flokk í málinu, en ekki er liðið nema ár síðan repúblikanar í þinginu felldu álíka tillögu um að heimila veikari útfærslu á sömu hugmynd. New York Times segir hugmyndir Trumps í málaflokknum standa nær demókrötum. Þannig hafi hann í kosningabaráttunni árið 2016 sagst vilja heimila Medicare að semja beint við lyfjafyrirtæki um lyfjaverð, nokkuð sem repúblikanar á þingi komu í veg fyrir árið 2003 þegar greiðslum fyrir lyfseðilsskyld lyf var komið undir Medicare árið 2003.

„Tillögur hans eru ólíkar rétttrúnaði repúblikana,“ segir Rachel Sachs, prófessor í lögum við Washington-háskóla í St. Louis. Hún segir reglugerðina „mjög stórt dæmi, fræðilega.“ Eins og fleiri sérfræðingar í lyfjalögum varar hún þó við að reglugerðin, sem unnin hefur verið í flýti, eigi á hættu að verða ógild þegar hún fer fyrir dómstóla, enda óhjákvæmilegt að lyfjafyrirtækin muni leita þangað.

Trump gaf sjálfur í skyn á blaðamannafundinum að það gæti gerst. „Ég vona að þau haldi henni. Ég vona að þau hafi hugrekkið til að halda henni því valdamikil hagsmunasamtök lyfjafyrirtækjanna eru að setja ótrúlega pressu á fólk.“

mbl.is