Yfir 12 milljónir smita í Bandaríkjunum

AFP

Enn fjölgar nýjum kórónuveirusmitum í Bandaríkjunum og eru þau nú komin yfir tólf milljónir samkvæmt upplýsingum frá Johns Hopkins háskólanum. Yfir 255 þúsund þeirra eru látnir af völdum sjúkdómsins. Bandaríkin njóta því þess vafasama heiðurs að vera með flest smit og flest dauðsföll ríkja í heiminum. Aðeins sex dagar eru síðan smitin fóru yfir 11 milljónir. 

Heilbrigðisyfirvöld hafa biðlað til fólks að halda sig heima í næstu viku þegar þakkargjörðarhátíðin er haldin hátíðleg. Yfirleitt eru Bandaríkjamenn á faraldsfæti þá þar sem flestir reyna að halda hátíðina með sínum nánustu.

Skólum hefur verið lokað í New York borg og útgöngubann hefur verið sett í Kaliforníu að næturlagi. Í Chicago hefur fólk verið beðið um að halda sig heima frá því á mánudag.

Í gær greindi elsti sonur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Donald Trump Jr, frá því að hann hefði greinst með staðfest smit. Fjölmörg smit hafa greinst í tengslum við Hvíta húsið að undanförnu en bæði faðir hans og stjúpmóðir Melania og yngsti bróðir hans, Barron, hafa öll fengið Covid-19.

Miklar vonir eru bundnar við nýtt bóluefni og í gær sóttu bandaríska lyfjafyrirtækið Pfizer og þýska líftæknifyrirtækið BioNTech um leyfi til þess að setja bóluefni sem fyrirtækin hafa þróað á markað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert