Líklegri til að koma hömlum á tæknifyrirtæki

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Helsti ráðgjafi Joe Bidens, verðandi Bandaríkjaforseta, í málefnum tæknifyrirtækja var einn þeirra sem samdi tímamótalöggjöf um friðhelgi einkalífs í Kaliforníu og fordæmdi nýlega umdeild lög sem firra netfyrirtæki ábyrgð á vissum sviðum. Í grein Reuters segir að þetta sé til marks um þá stefnu sem ríkisstjórn Joe Bidens muni marka á sviði tækni.

Bruce Reed heitir maðurinn og var skrifstofustjóri Bidens þegar hann gegndi embætti varaforseta. Hann vann að því að ná samkomulagi milli tæknifyrirtækja og löggjafans vegna frumvarps sem síðar varð að neytendaverndarlögum Kaliforníu árið 2018, en stuðningmenn friðhelgi einkalífs á netinu líta til þeirra laga sem fyrirmyndar fyrir landslög.

Reed, sem er sextugur, hóf baráttu sína fyrir friðhelgi á netinu er hann varð ráðgjafi hjá neytendasamtöunum Common Sense Media, sem berjast fyrir rétti neytenda til að vita hvaða upplýsingum er dreift um þá og rétt neytenda til að krefja tæknifyrirtæki um að eyða þeim.

Slíkar reglur eru þegar í gildi í Evrópusambandinu, og á Íslandi, eftir að Evrópuþingið samþykkti almennu persónuverndarreglugerðina, GDPR, árið 2018.

„Hann skilur að það þurfa að vera góðar reglugerðir,“ segir Alastair Mactaggart, fasteignasali sem átti frumkvæðið að reglunum í Kaliforníu. „Hann vill að eitthvað sé gert og hann er ekki blindur hugsjónamaður sem myndi yfirgefa samningaborðið ef ekki er allt eftir hans óskum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert