Merkel hefur áhyggjur af dreifingu bóluefna

Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Angela Merkel Þýskalandskanslari. AFP

Angela Merkel kanslari Þýskalands segist hafa áhyggjur af því að enginn þýðingarmikill samningur hafi verið gerður um útdeilingu bóluefna til fátækari ríkja heims.

Ummælin lét hún falla eftir G20-fundinn, fund tuttugu helstu iðnríkja heims, sem fór fram rafrænt um helgina. Á fundinum sammæltust leiðtogarnir um að leggja áherslu á „sanngjarna dreifingu“ kórónuveirubóluefna, en Merkel viðraði þar áhyggjur sínar um hve hægt það gengi.

Ríkustu lönd heims hafa þegar tryggt sér fjölda skammta af þeim bóluefnum sem mestar vonir eru bundnar við, og hafa Bandaríkin til að mynda gefið út að stefnt sé að því að hefja bólusetningar 11. desember.

Sérfræðingar vara við því að þróunarríki standi frammi fyrir hindrunum sem geti orðið til þess að milljarðar manna verði án bólusetningar fyrir veirunni.

Í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoga G20-ríkjanna, sem gefin var út að fundi loknum, segir að ríkin muni „ekki láta neitt stöðva sig í að tryggja ódýran og sanngjarnan aðgang að bóluefni fyrir allar þjóðir,“ og á blaðamannafundi sagði Mohammed al-Jadaan fjármálaráðherra Sádí-Arabíu, sem stýrði fundinum, að samhljómur væri meðal ríkjanna um það að „ef eitthvert ríki er skilið eftir verðum við öll skilin eftir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert